Hjólaskíðamót helgina 1.- 2. október

Allir bruna af stað...Fyrirhugað er að halda hið árlega hjólaskíðamót Ullar helgina 1.-2. október. Keppni hefst kl 17:00 á laugardeginum með sprettgöngu en svo á sunnudagsmorgninum verður svo keppt í lengri vegalengdum.
Hægt verður að skrá sig á næstu dögum á heimasíðu félagsins en við munum þá einnig birta nánari upplýsingar.
Takið helgina frá! 

 

Barna- og unglingaæfingar hefjast miðvikudaginn 14. september kl 18:00

krakkaullurHaustið 2016 verða reglulegar æfingar fyrir börn og unglinga á vegum Ulls undir stjórn Sigrúnar Önnu Auðardóttur þjálfara og hefjast þær miðvikudaginn 14. september. Æfingarnar eru fyrir 6 ára og eldri. Fyrirkomulag þeirra verður  með eftirfarandi hætti:

Æfingar barna- og unglinga verða tvisvar í viku þar til æfingarnar færast á snjó, kl. 18:00 á miðvikudögum og kl. 11:00 á sunnudögum. Mæting á bílastæðið við Árbæjarsafn. Æfingarnar standa yfir í 1 klst hjá börnunum og 1-1 ½ klst. hjá unglingunum.

Nýir iðkendur eru velkomnir og þeir sem hafa áhuga á að bætast í hópinn geta t.d. sent Sigrúnu Önnu eða forsvarsmanni foreldrafélagsins, Ólafi Th. Árnasyni, tölvupóst í krakkaullur@gmail.com. Einnig má hringja í Sigrúnu í síma 849-5323.

Allar helstu upplýsingar um æfingarnar má svo finna á facebook grúppu hópsins.

Næsta samæfing á Ísafirði 25. – 28. ágúst

SKI_150Skíðagöngunefnd SKÍ boðar nú samæfingu skíðagöngufólks 12 ára og eldri 25.-28. ágúst á Ísafirði. Gist verður í skíðaskálanum í Tungudal þar sem einnig verður græjað fullt fæði alla dagana.

Kostnaður við hvern þátttakanda er 13.000 kr. Landsliðsþjálfarinn Jóstein Vinjerui fer fyrir æfingunni og honum til aðstoðar verða þaulreyndir skíðamenn og þjálfarar.

Dagskrána í heild ásamt upplýsingum um skráningu o.fl. má sjá hér: Samæfing SKÍ Ísafirði

Skráningu lýkur 18. ágúst.

Uppskeruhátíð Ullar fimmtudaginn 2. júní kl 19:00

Ágætu Ullarfélagar.

Nú er frábærum vetri í starfi okkar lokið. Metþátttaka á námskeiðum. Mikil fjölgun í félaginu og síðast en ekki síst frábær árangur á skíðamótum vetrarins.

Því höfum við ástæðu til að fagna árangrinum og kveðja vertíðina með hófi í góðum félagsskap hvers annars. Hófið verður haldið í Mýrakoti sem er lítill samkomusalur við gróðrastöðina Lambhaga við Úlfarsá. Mýrakot er perla í borginni þar sem við munum eiga frábæra kvöldstund.
Við viljum sjá alla þá sem virkir hafa verið í starfi félagsins í vetur. Allir sem tekið hafa þátt í kennslu, keppt á mótum, verið í skálavörslu, sinnt mótahaldi og öðrum verkefnum. Þolinmóðir makar sem hafa beðið heima á meðan við höfum verið að ganga eru velkomnir.

Ullur býður upp á grillmat og skemmtilegheit. Öllum er velkomið að taka með sér „görótta drykki“ ef þið viljið enda ætlum við að skála oft og mikið fyrir frábæru starfi. Aðgangur er ókeypis, enda hafið þið unnið frábært starf í vetur en samt ætlum við að hafa samskotabauk á staðnum til að halda kostnaði í lágmarki.

Vinsamlegast skráið ykkur á þennan viðburð upp á að við getum áttað okkur á hversu mikinn mat þarf að panta fyrir kvöldið með því að senda póst á ullarpostur@gmail.com með fjölda þátttakenda.

Hlökkum til að sjá ykkur og samgleðjast eftir hreint út sagt frábæran vetur. Næsti vetur verður enn betri.

Stjórn Ullar


Auglýsingu með korti má finna hér.

Forpöntun á Fischer skíðum

Eftirfarandi skilaboð bárust frá Everest:

„Hér í meðfylgjandi skjali er pöntunarform fyrir gönguskíðin frá Fischer fyrir næsta vetur. Pantanir þurfa að berast fyrir 1. maí næstkomandi. Afhendingartími verður um mánaðarmót nóv-des“

Úrval skíða og verð má sjá hér.

Forpöntun á Atomic skíðum

Eftirfarandi skilaboð bárust frá Íslensku Ölpunum:

„Heil og sæl skíðamenn og konur.
Í tilefni af pöntun á ATOMIC skíðavörum fyrir veturinn 2016 – 2017 þá sendum við ykkur lista yfir skíði, skíðaskó, bindingar og aðrar vörur er varða keppendur. Vörulínan er glæsileg og eingöngu verksmiðjuskíði í boði. Pantanir á vörum verða að berast fyrir 30. apríl 2016. Ég mun vera með bás á Andrésar Andaleikunum þar sem tek niður pantanir fyrir þá sem ekki hafa pantað. ATH. Afhending verður í nóvember 2016.

Pantanir og fyrirspurnir berist til;
Fjalars Úlfarssonar
Sími: 898-9822
Mail: alparnir@simnet.is“

Úrval skíða og verð má sjá hér

Forpöntun á Madshus skíðum

Eftirfarandi skilaboð bárust frá Bobba í Craftsport:

„Sælir skíðamenn
Nú er komið að því að forpanta fyrir næsta vetur, ég þarf að fá þetta fyrir 23. apríl þannig að ég nái að koma út pöntun 25/4. Þetta miðast við að pöntun verði afgreidd í lok nóvember 2016. Eins og áður þá þurfum við hæð, skóstærð og þyngd þar sem það á við.“

Úrval skíða og verð má sjá hér

Fjölskyldudagur Ullar á sunnudaginn, 17. apríl

Á sunnudaginn kemur stendur Ullur fyrir fjölskyldudegi í Bláfjöllum. Búin verður til þrautabraut og verður hægt að fá lánuð skíði. Við hvetjum skíðaforeldra til að taka börnin með á skíði því það verða fullt af skemmtilegheitum við skála Ullunga. Hátíðin hefst kl. 11 og stendur til ca. 15:30. Fólk er hvatt til að mæta í furðufötum, til dæmis uppábúið í jakkafötum eða trúðsbúningum hvers konar.

Vinsamlegast tilkynnið þátttöku með því að senda póst á ullarpostur@gmail.com og láta vita hvað margir koma svo hægt sé að áætla pylsukaup. Nánari upplýsingar um dagskrá má sjá á mynd fyrir neðan. Athugið, Reykjavíkurmeistaramóti sem auglýst er á myndinni hefur verið frestað fram í byrjun maí og verður auglýst síðar. 
fjolskyldudagur

Aðalfundarboð 2016

Aðalfundur Skíðagöngufélagsins Ullar verður haldinn í húsnæði ÍSÍ, sal E í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, mánudaginn 25. apríl 2016 kl. 20:00.

Málefni sem félagar óska eftir að tekin verði fyrir á fundinum skulu hafa borist stjórn minnst viku fyrir aðalfund. Mál sem berast eftir að sá frestur er liðinn verða ekki tekin fyrir nema 2/3 fundarmanna samþykki það. Rétt til fundarsetu með öllum réttindum hafa skuldlausir félagar.

Dagsskrá aðalfundar:

 1. Fundarsetning
  Kosnir fundarstjóri og fundarritari
  3.   Lögð fram ársskýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár og umræða um hana
  4.   Lagðir fram endurskoðaðir ársreikningar, umræða og atkvæðagreiðsla
  5.   Skýrslur nefnda
  6.   Fjárhagsáætlun næsta starfsárs
  7.   Lagabreytingar ef fyrir liggja
  8.   Stjórnarkjör:
  a)     kosinn formaður
  b)     kosnir fjórir aðalstjórnarmenn
  c)      kosnir tveir varamenn í stjórn
  d)     kosinn skoðunarmaður og annar til vara
  9.   Aðrar tillögur sem borist hafa til stjórnar
  10.   Önnur mál
  11.   Fundarslit

 

Félags­menn eru hvattir til að mæta á fundinn og taka þátt í að móta starf félagsins, þetta er ykkar félag.

Stjórnin

Orkugangan á laugardaginn

Orkugangan 2016 fer fram næstkomandi laugardag, 9. apríl. Allar upplýsingar hér.