Aðventu- og skíðakveðja.

Kæru félagar í Ulli

Nú er undirbúningur fyrir skíðaveturinn 2018-2019 kominn á fullt. Það er búið að leggja inn pöntun á talsverðu magni af snjó, verið er að undirbúa skíðagöngusvæðið í Bláfjöllum fyrir veturinn, búið er að skipuleggja fyrstu námskeiðin, barna og unglingaæfingarnar eru komnar á fullt, búið er að ákveða dagsetningar á Íslandsgöngunum og þar með talið Bláfjallgöngunni, skálinn er tilbúinn að taka við fólki o.s.frv.

Nokkrir einstaklingar hafa skráð sig sem sjálfboðaliða fyrir félagið og kunnum við þeim miklar þakkir fyrir. Alltaf má þó bæta við og hvetjum við alla sem geta til að skrá sig en það er hægt að gera hér: https://docs.google.com/forms/ en einnig er hægt að smella á hnapp hér til hliðar. Um er að ræða margvísleg verkefni sem tengjast þó flest mótum og öðrum viðburðum í Bláfjöllum. Margar hendur vinna létt verk.

Í vetur ætla Ullur, Reykjavíkurborg og Skógræktarfélag Reykjavíkur í samstarf um að gera nýja og flotta skíðagöngubraut í Heiðmörk. Búið er að grisja skóg og kaupa sleða og búnað til þess gera brautina sem besta.

Til að halda úti öflugu starfi þarf félagið á framlagi allra að halda og hvetjum við því félaga í Ulli til að greiða greiðsluseðil sem hefur borist í heimabankann sem fyrst. Fjölmargir hafa nú þegar greitt félagsgjöldin og viljum við þakka kærlega fyrir það.

Félagsskírteini verða svo send út á næstunni en þau gefa afslátt í völdum verslunum og á árskorti á skíðasvæði Bláfjalla og Skálafells.

Vonandi hafið þið það gott um hátíðarnar.

Aðventu- og skíðakveðja,

Stjórn Ullar

Námskeið hjá Ulli veturinn 2018-2019

Veturinn 2018-2019 verða eftirfarandi námskeið í boði hjá Ulli

ATH! Dagsetningar eru með fyrirvara um að aðstæður séu fyrir hendi til að halda námskeið.

Skráning og nánari upplýsingar er að finna á verslun.ullur.is

Byrjendanámskeið (1 skipti)

Byrjendanámskeið eru 1 skipti og kostar námskeiðið 3.000 kr.  Þeir sem þurfa að fá lánaðan búnað greiða 2.000 kr. að auki en ekki má treysta því að fleiri en 15 geti fengið lánaðan búnað á hverju námskeiði.

Nánar auglýst síðar, þ.e. þegar aðstæður leyfa.

Námskeið (6 skipti)

Námskeið fyrir byrjendur og til upprifjunar: Námskeiðið verður á mánudögum og miðvikudögum kl. 18:00 og einn laugardag kl. 10:30, sex skipti samtals. Rúmlega viku hlé verður gert á kennslu til þess að þátttakendur geti æft það sem farið var yfir á fyrstu dögum námskeiðisins. Hluti af námskeiðinu verður smurningskennsla og verður hún haldin þegar/ef veður verður vont einhvern daginn. Fylgist með á Facebook síðu Ullar varðandi breytingar vegna veðurs.

Verð: 12.000.- kr og aðild að Ulli er skilyrði.

Íslandsgönguæfingar

Samæfingar fyrir almenning sem verða haldnar einu sinni í viku, á miðvikudögum kl. 20:00. Farið verður í áfangaþjálfun, langþjálfun, spretti og ýmsar aðrar þjálfunaraðferðir undir handleiðslu reynds þjálfara. Fyrir hverja æfingu verður lagt upp með ákveðin atriði í tækni og þjálfunaraðferðum en ekki verður unnt að fara ýtarlega í tækniæfingar á þessum æfingum.

Ætlast er til að þátttakendur hafi einhverja reynslu af skíðagöngu og/eða lokið a.m.k. einu 6 skipta námskeiði hjá Ulli. Fyrsta æfing hefst 9. janúar kl. 20:00. Tilvalið fyrir þau sem stefna á Íslandsgöngu(r) í vetur eða aðrar lengri göngur.

Verð: 20.000,- fyrir fjóra mánuði og aðild að Ulli er skilyrði

Skautanámskeið (2 skipti)

Skautanámskeið verða í 2 skipti og kennt laugardagana 12. og 19. janúar klukkan 9:00. Ætlast er til þess að þátttakendur hafi einhverja reynslu af skíðagöngu.

Verð: 5.000,- kr og aðild að Ulli er skilyrði.

Námskeið fyrir sérhópa

Vinir, vinnufélagar og aðrir hópar geta tekið sig saman og pantað sér námskeið, eitt eða fleiri skipti, með því að senda póst á ullarpostur@gmail.com. Lágmarksfjöldi er 6 manns.

 

Vakin er athygli á því að eins og á öðrum skíðasvæðum þarf að kaupa skíðakort sem gildir í brautirnar í Bláfjöllum en það er ekki innifalið í námskeiðum sem haldin eru á svæðinu.

Býr sjálfboðaliði í þér?

Okkur langar að vekja athygli þín á hnapp hér á síðunni, SJÁLFBOÐALIÐAR. Með því að smella á hann getur þú fyllt út skráningarform og þar með komist í hóp öflugra sjálfboða Skíðagöngufélagsins Ulls. Verkefnin eru fjölmörg og skemmtileg og krefjast þess ekki að viðkomandi hafi endalausa reynslu af kakóbruggi, skíðasmurningu eða brautarvörslu. Vinnugleði og létt lund er eina skilyrðið.

Vertu með! Skráðu þig!

Úrslit úr hjólaskíðamóti 21. október

Hið árlega hjólaskíðamót Ullar fór fram sunnudaginn 21. október í alls konar veðri en þátttakendur létu það ekki á sig fá og þutu um Fossvogsdalinn eins og enginn væri morgundagurinn.

Í ár mættu 13 þátttakendur til leiks á öllum aldri. Í fullorðinsflokki, 17 ára og eldri, voru sigurvegarar þau Gunnlaugur Jónasson, Ulli og Auður Ebenezersdóttir, líka úr Ulli. Í flokki unglinga sigraði Ægir Valbjörnsson, SKA. Það var Ferða- og útivistaverslunin Everest og Ísleifur heppni sem gáfu glæsileg verðlaun fyrir fyrstu þrjú sæti í kvenna-, karla- og unglingaflokki.

Nánari úrslit má sjá hér.

Kynningarkvöld Ullar

Fimmtudagskvöldið 1. nóvember heldur Skíðagöngufélagið Ullur sitt árlega kynningarkvöld í húsakynnum ÍSÍ í Laugardal kl 20:00, 2. hæð.

Á fundinum verður kynning á starfi vetrarins, bæði námskeið og mót.

Sem fyrr, þá bjóðum við bæði upp á lengri og styttri námskeið fyrir byrjendur og aðeins lengra komna en einnig verður boðið upp á æfingar fyrir þau sem hyggja á þátttöku í mótum, t.d. Íslandsgöngunum. Auk þess verður boðið upp á einkanámskeið fyrir hópa.

Í lokin verða nokkrar verslanir með kynningu á sínum skíðagönguvörum en félagar í Ulli fá ríflegan afslátt í þeim verslunum.

Við hvetjum fólk til að fjölmenna á fundinn hvort sem það hefur stundað íþróttina áður eða ekki. Kjörið tækifæri til að endurnýja kynnin við skíðagöngufélaga.

Hjólaskíðamót sunnudaginn 21. október

Hið árlega hjólaskíðamót Ullar verður haldið sunnudaginn 21. október. Mótið, sem er jafnframt fyrsti viðburður félagsins á nýjum skíðavetri, fer fram í Fossvogsdal en mark og start er í nágrenni Víkings og er merkt inn á kortið hér fyrir neðan. Ræst verður hjá yngri flokkum kl 10 og hjá 12 ára og eldri kl 10:30.

Dagskrá og flokkar eru eftirfarandi:

Ræsing kl. 10:00
11 ára og yngri mega vera á línuskautum eða hjólaskíðum
9 ára og yngri – fara 1 km (út frá marki eftir stígnum og til baka  í mark)
10-11 ára – fara 2 km (út frá marki eftir stígnum og til baka  í mark)

Þrautabraut fyrir þá yngstu við rásmark

Ræsing kl 10:30+  (eða um leið og allir eru komnir í mark og tímataka er klár)
12-16 ára stúlkur og piltar – Hjólaskíði, hefðbundin aðferð 5 km
12-16 ára stúlkur og piltar – Línuskautar, frjáls aðferð með stafi 5 km
17 ára og eldri konur og karlar – Hjólaskíði, hefðbundin aðferð 10 km.

Einungis má keppa á hjólaskíðum með stoppara (ekki á skautahjólaskíðum). Hjálmaskylda er í keppninni.

Þátttökugjald fyrir 12 ára og eldri er 1000 kr., 500kr fyrir yngri en 12 ára, ókeypis í þrautabraut. Hægt er að skrá sig hér, en einnig má skrá sig á staðnum. Æskilegt er að sem flestir skrái sig fyrir fram.

Þátttökugjald greiðist á staðnum (ekki tekið við kortum). Nánari upplýsingar veita Einar Óla í síma 696 3699 og Málfríður í síma 894 6337.

Kort af 5km hring má sjá hér fyrir neðan (smella á mynd til að sjá stærri). Þar má einni sjá hvar startið er.

Athugið! Eftir mótið er í samstarfi við XC Skíðaþjálfun boðið upp á tækniæfingu á hjólaskíðum! Svo það er um að gera að koma og taka þátt og skella sér á æfingu á eftir nú eða koma og hvetja keppendur til dáða og koma svo á æfingu! Sjá nánar um viðburðinn hér.

Góður dagur í Heiðmörk

Það var flott veður og frábær stemming í Heiðmörk þegar Ullungar gerðu þar innrás nýverið. Verkefni dagsins var að jafna út og gera nýlagða viðbót við gönguskíðabrautina klára fyrir veturinn og nýja troðaran sem þar verður. Vannst verkið vel þó enn sé nokkuð eftir. Með samstilltu átaki við brautarvinnu og góðum snjóalögum má búast við frábærum aðstæðum á komandi vetrum. Framtíðin er björt!

Ekki var stemmingin síðri um kvöldið þegar haustfagnaður Ullar var keyrður í gang. Hressandi veitingar og frábær stemming réð ríkjum langt fram á kvöld.

Ullur vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem lögðu sitt að mörkum. Takk!

20180929_151953

Myndir frá viðburðinum má finna á myndasíðu félagsins

 

Vinnuferð og haustfagnaður

Næstkomandi laugardag, 29. september, ætlum við Ullungar að hafa vinnuferð í  Heiðmörk til að undirbúa skíðagöngubrautina fyrir nýjan snjósleða og troðara sem Reykjavíkurborg hefur fjárfest í.

Aðalvinnan felst í að hreinsa grjót og greinar úr brautinni. Við ætlum að hittast kl 14:00 hjá bílastæðinu við upphaf brautinnar og áætlum að ljúka vinnu 18:00.

Tilkoma þessa nýja sleða og troðara mun gerbreyta aðstöðu okkar í Heiðmörk og því mikilvægt að við leggjum okkar af mörkum við að styðja þetta verkefni. Við fáum einhver verkfæri lánuð frá Skógræktinni en ágætt ef þátttakendur gætu tekið með skóflur, malarhrífur og járnkalla.

Eftir vinnudaginn ætlum við að blása til haustfagnaðar til að fagna síðasta starfsári og hita upp fyrir komandi tímabil. Endanleg staðfesting liggur ekki fyrir, en líklega fáum við lánaðan sal í gamla Elliðavatnsbænum strax eftir vinnutörnina (18:00) þar sem félagið mun leggja til grillmat og léttar veitingar.

Vinsamlega tilkynnið mætingu á tölvupóstfangið ullarpostur@gmail.com

Með von um sjá sem flesta í vinnu og fagnaði,

Stjórnin

Flott fyrsta æfing hjá krökkunum

Fyrsta æfing „vetrarins“ var í morgun hjá krökkunum. Þetta var jafnframt fyrsta æfing nýja þjálfarans. Æfingin bar þess merki að krakkarnir væru pínu feimnir, eðlilega!

Á æfinguna mætti 11 krakkar þarf af 4 nýjir. Það verður að teljast frábær mæting á fyrstu æfingu sem einkendist af léttu skokki áður en farið var í boðhlaup. Í boðhlaupinu var skipt í þrjú lið og hinum ýmsu aðferðum beitt. Hlaupið áfram og aftur á bak, hoppað á einum fæti og á báðum fótum, áður en skokkað var til baka. Allt til að byggja upp grunnþol, styrk og jafnvægi fyrir komandi vetur.

Næsta æfing er á miðvikudaginn kl. 18:00. Nánari upplýsignar verður að finna á Facebook síðu barna og unglingastarfsins, Barna- og unglingaæfingar Ullar.

æfing 3

Endre þjálfari stjórnar sinni fyrstu æfingu, karkkarnir (og tveir áhugasamir feður) fylgjast með.

æfing 4

Hoppað á einum fæti í spennandi „boðhoppi“

Barnastarfið hefst um helgina

Laugardaginn 15. september kl. 11:00 fer vetrarstarfið í af stað hjá krökkunum. Fyrsta æfingin verður í Elliðaárdalnum, mæting á bílaplaninu við rafstöðina, klædd eftir veðri og í góðum skóm (hlaupa/íþróttaskóm eða álíka).

Við ætlum aðeins að segja frá vetrarstarfinu í upphafi æfingar og fara yfir málin. Foreldrar eru því sérstaklega hvattir til að mæta með krökkunum.

Nánari upplýsingar á krakkaullur@gmail.com og í auglýsingunni hér undir.

Skíðagönguæfingar fyrir börn og unglinga 2018-2019_1