Aðalfundur Ullar 9. maí 2022

Aðalfundur Skíðagöngufélagsins Ullar verður haldinn í húsnæði ÍSÍ, Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, mánudaginn 9. maí 2022 kl. 20:00.

Málefni sem félagar óska eftir að tekin verði fyrir á fundinum skulu hafa borist stjórn minnst viku fyrir aðalfund á netfangið stjornullar@gmail.com

Mál sem berast eftir að sá frestur er liðinn verða ekki tekin fyrir nema 2/3 fundarmanna samþykki það. Rétt til fundarsetu með öllum réttindum hafa félagar í Ulli.

Dagskrá aðalfundar:

 1. Fundarsetning
 2. Kosnir fundarstjóri og fundarritari
 3. Lögð fram ársskýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár og umræða um hana
 4. Skýrslur nefnda
 5. Lagðir fram endurskoðaðir ársreikningar, umræða og atkvæðagreiðsla
 6. Fjárhagsáætlun næsta starfsárs
 7. Lagabreytingar ef fyrir liggja
 8. Stjórnarkjör:
  a) kosinn formaður
  b) kosnir fjórir aðalstjórnarmenn
  c) kosnir tveir varamenn í stjórn
  d) kosinn skoðunarmaður og annar til vara
 9. Aðrar tillögur sem borist hafa til stjórnar
 10. Önnur mál
 11. Fundarslit

Félags­menn eru hvattir til að mæta á fundinn og taka þátt í að móta starf félagsins.


Andrésar Andar leikarnir 2022

Núna dagana 20. til 23. apríl fara fram hinir árlegu Andrésar Andar leikar á Akureyri og þetta árið eru veðurguðirinir okkur aldeilis hliðhollir eins og sjá má á myndunum hér fyrir neðan.

Metþáttaka er frá Skíðagöngufélaginu Ulli en nú í ár taka alls um 26 hressir krakka á aldrinum 5 til 16 ára þátt í leikunum. Við leyfum við myndum frá setningu mótsins og keppni dagsins í dag að tala sínu máli…

ÁFRAM ULLUR!!

Frábær árangur Ullunga hélt áfram

Skíðamóti Íslands lauk á mánudaginn í blíðskaparveðri þegar keppt var í tveimur greinum.
Fyrst var sprettganga með hefðbundinni aðferð í hraðri og skemmtilegri braut. Í karlaflokki nældi Snorri Einarsson, gullkálfur Skíðamóts Íslands, sér í enn ein gullverðlaunin, um 10 sek á undan Degi Benediktssyni frá SFÍ. Í kvennaflokki var Ullur með fyrstu tvö sætin. Kristrún Guðnadóttir sigraði og á eftir henni kom Salóme Grímsdóttir og tók silfrið.

Seinna um daginn var svo komið að liðaspretti. Þar var mikil spenna eins og við má búast í þeirri grein og hélt sigurganga Ullar á mótinu áfram.
Í Karlaflokki skipuðu sveit Ullar, þeir Snorri Einarsson og hinn bráðefnilegi Fróði Hymer, sem er aðeins 16 ára gamall. Skemmst er frá því að segja að þeir sigruðu nokkuð örugglega og tóku gullverðlaunin á undan sveit Ísfirðinga og Akureyringa.
Í kvennaflokki var spennan öllu meiri. Sveit Ullar skipuðu Kristrún Guðnadóttir og Salóme Grímsdóttir og var keppnin jöfn og spennandi alla leið. Baráttan við sveit Akureyringa var svo mikil að skera þurfti úr með „photofinish“ hver hefði sigrað liðasprettinn. Fór það svo að sveit Ullar reyndist vera á undan og hreppti Ullur því öll gullverðlaunin þennan daginn í fullorðins flokki.

Öll úrslit mótsins má finna á timataka.net

Skíðagöngufélagið Ullur óskar keppendum til hamingju með frábæran árangur á mótinu. Félagið er einnig ánægt með þá miklu þátttöku sem var á mótinu og er ljóst að skíðagangan blómstrar á höfuðborgarsvæðinu sem aldrei fyrr.

Fræknir keppendur Ullar að loknum liðaspretti

Góður árangur Ullunga á SMÍ

Skíðamót Íslands er nú í fullum gangi á Ólafsfirði og hefur nú tveimur keppnisdögum verið lokið. 

Ullur sendi fjölmennt lið á mótið eða 14 keppendur alls og hefur Ullur átt góðu gengi að fagna á mótinu.

Í gær var keppt með frjálsri aðferð við prýðisaðstæður og var brautin þétt og góð og mikill hraði. Skemmst er frá því að segja að Ullur tók 4 Íslandsmeistaratitla.

Konur gengu 5 km, karlar 10 km, 13-14 ára gengu 3,5 km og 15-16 ára gengu 5 km og var ræst með hópstarti. 

Hjá konunum sigraði Ullungurinn Kristrún Guðnadóttir, Salóme Grímsdóttir varð 5. og Aníta Björk Jóhannsdóttir Randíardóttir varð 7.    

Í flokki 15-16 ára stúlkna sigraði María Kristín Ólafsdóttir og Sigríður Dóra Guðmundsdóttir tók silfrið, báðar frá Ulli. 

Í flokki 13-14 ára stúlkna nældu Vala Kristín Georgsdóttir og Hildur Lilja Traustadóttir frá Ulli sér í 6. og 7. sætið. 

Í karlaflokki sigraði Ullungurinn Snorri Einarsson og var hann hársbreidd á undan írska landsliðsmanninum Thomas Westgaard. Úlfur Björnsson varð 8. og Svavar Hrafn Ágústsson 9.   

Fróði Hymer Ulli, sigraði svo í flokki 17-18 ára drengja, hjá 15-16 ára drengjum varð Hjalti Böðvarsson Ulli 2. og hjá 13-14 ára drengjum varð Elías Mar Friðriksson 4. og Ernir Benediktsson 5. 

Í dag hélt svo áfram keppnin en þá var gengið með einstaklingsstarti með 30 sekúndna millibili. Ullungar héldu áfram að sanka að sér medalíunum og tókum við m.a. 2 Íslandsmeistaratitla. 

Hjá konunum nældi Salóme Grímsdóttir í Ulli sér í bronsverðlaunin og Aníta Björk Jóhannsdóttir Randíardóttir varð 4.     

Í flokki 15-16 ára stúlkna varð María Kristín Ólafsdóttir nr.2 og Sigríður Dóra Guðmundsdóttir tók bronsið. Þuríður Yngvadóttir varð nr. 7 

Í flokki 13-14 ára stúlkna nældu Vala Kristín Georgsdóttir og Hildur Lilja Traustadóttir sér í 4. og 6. sætið.  

Í karlaflokki sigraði Ullungurinn Snorri Einarsson. Svavar Hrafn Ágústsson varð 7. og Úlfur Björnsson varð 8. 

Fróði Hymer Ulli, sigraði svo aftur í flokki 17-18 ára drengja og hjá 13-14 ára drengjum varð Elías Mar Friðriksson 4. og Ernir Benediktsson 5.  

Í nýjum flokki 35-49 ára varð svo Íslandsmeistari Ólafur Th. Árnason, Ulli. Þessi flokkur ásamt 50+ er vonandi kominn til að vera og hvetur vonandi gamlar kempur og nýjar til að keppa.

Ullur óskar keppendum sínum á mótinu til hamingju með árangurinn.

Keppni heldur svo áfram á morgun með sprettgöngu og liðaspretti og munum við færa ykkur fréttir af gangi mála. 

Nýir flokkar á Skíðamóti Íslands

Í ár á að prófa að bjóða upp á keppni í flokkum 35-49 ára og 50 ára og eldri, fólk fætt 1987 eða fyrr, í hefðbundinni göngu á sunnudeginum

Í þessar keppnir þarf ekki FIS keppnisleyfi og er vonast til að ná til fólks sem langar á SMÍ og sjá okkar besta fólk. Hér er nú tækifæri til að máta sig í sömu brautir og gera sér góðan dag. Að sjálfsögðu er svo liðakeppnin á mánudag opin fyrir öllum líka.

Dagskrá mótsins má sjá hér.

Skráningar Ullunga í þessa nýju flokka skulu berast á netfangið malfridur@gmail.com í síðasta lagi kl 17:00 miðvikudaginn 23. mars. 

Mótsboð: Skíðamót Íslands í skíðagöngu á Ólafsfirði dagana 25.–28. mars 2022

Dagana 25. – 28. mars 2022 fer fram Skíðamót Íslands í skíðagöngu á Ólafsfirði. Skíðamót Íslands í skíðagöngu (SMÍ) er  fyrir 13 ára og eldri. SMÍ er jafnframt alþjóðlegt FIS-mót og gilda keppnisreglur FIS á mótinu. Keppendur 17 ára og eldri þurfa því að hafa gilt FIS-leyfi til að keppa.

Mótsboðið með fleiri upplýsingum má finna hér og dagskrá mótsins má finna hér.

Skráningar Ullunga skulu berast á netfangið malfridur@gmail.com í síðasta lagi kl 12:00 þriðjudaginn 15. mars. 

Sögulegur árangur Snorra

Snorri Einarsson frá Skíðagöngufélaginu Ulli lauk um helgina keppni á Ólympíuleikunum i Beijing er keppt var í 50 km göngu með frjálsri aðferð. Gangan var reyndar öllu styttri eða 28,4 km vegna veðurskilyrða en kuldi og vindur hefur gert mótshöldurum erfitt fyrir á leikunum.

Skemmst er frá því að segja að árangur Snorra er sögulegur. Aldrei hefur íslenskur skíðagöngumaður náð betra sæti en Snorri náði í í göngunni er hann kom í mark  nr. 23,  3 mínútum og 18 sekúndum á eftir sigurvegaranum Alexander Bolshunov frá rússnesku Ólympíunefndinni. 

Snorri keppti einnig í liðaspretti, 15 km og 30 km skiptigöngu á leikunum og náði þar einnig góðum árangri:

 • 30 km skiptiganga – 29.sæti
 • 15 km hefðbundið – 36.sæti
 • Liðasprettur 20.sæti

Ljóst er því að þetta er mikil bæting frá seinustu Ólympíuleikum þar sem Snorri náði best 53.sæti.

Kristrún Guðnadóttir frá Ulli keppti einnig á leikunum en hún hafnaði í 74.sæti og verður það að teljast góður árangur í ljósi þess að lenti í alvarlegum hnémeiðslum seinasta vor.

Skíðagöngufélagið Ullur er stolt af þessum fulltrúum okkar á erlendri grundu og óskar þeim til hamingju með árangurinn á leikunum!

Snorri Einarsson, mynd: NordicFocus
Kristrún Guðnadóttir, mynd: Kristrún Guðnadóttir