Hjólaskíðamót – upplýsingar

Eins og áður hefur verið auglýst þá fer hið árlega hjólaskíðamót Ullar fram laugardaginn 9. október kl. 10.00. Mótið fer fram á sama stað og fyrir 2 árum síðan, eða á Völlunum í Hafnarfirði. Mark og start er á gatnamótum Dofrahellu og Straumhellu.

Keppt verður í eftirfarandi flokkum og vegalengdum:

Ræsing kl. 10.00

9 ára og yngri (fædd 2012 og yngri): 2 (fara einn hring sem að er 2km)

10-12 ára (fædd 2009-2011): 4 km (2 x 2km hringur)

12 ára og yngri mega vera á hvort sem er línuskautum eða hjólaskíðum og er frjáls aðferð leyfileg

Ræsing kl 10.30

13-16 ára stúlkur og piltar (fædd 2005-2008) – 6 km ( 3 x 2km hringur) Hefðbundin aðferð.

17 ára og eldri konur og karlar (fædd 2004 og eldri) –  10km ( 5 x 2km hringur) Hefðbundin aðferð.

Ath, 13+, mega einungis keppa á hjólaskíðum með stoppara (ekki á skautahjólaskíðum).

Hjálmaskylda er í keppninni.

Þátttökugjald:

16 ára og yngri: frítt

17 ára og eldri: 1000kr

Hægt er að skrá sig á verslun.ullur.is, en einnig má skrá sig á staðnum.

Brautin:

Hringurinn verður 2km langur. Start er á gatnamótum Dofrahellu, Straumhellu og Borgarhellu. Farið er upp Dofrahellu og svo fljótlega beygt til vinstri og svo eftir skamma stund til hægri og farið upp Búðarhellu. Þegar komið er að gatnamótum Búðarhellu og Borgarhellu er beygt til hægri og Borgarhellu fylgt að gatnamótum Borgarhellu og Dofrahellu, þar beygt til hægri niður Dofrahellu. Fljótlega er svo aftur beygt til hægri og farið inn á sama hring og áður, farið upp Búðarhellu og að gatnamótum Búðarhellu og Borgarhellu í annað skiptið, en í þetta skiptið er beygt til vinstri og Borgarhellu fylgt alla leið þar til komið er að gatnamótum Dofrahellu, Straumhellu og Borgarhellu þar sem markið er. Athugið að fljótlega eftir að lagt er af stað upp Dofrahellu þarf að fara yfir lítinn bút með möl (um það bil 2metra bútur) og þar þarf að fara varlega.

Mynd af hringnum er hér að neðan:

Nánari upplýsingar veitir Málfríður í síma 894 6337.

Hjólaskíðamót Sportval

Eftir að hafa reynt nokkrum sinnum að halda Sportvalsmótið síðasta vetur tókst það loks. Í þetta skipti var það haldið á hjólaskíðum, eðli málsins samkvæmt!

Sportvalsmótið er haldið fyrir yngstu iðkendur okkar eða frá 9 ára til 16 og fer venjulega fram á vorinn. En erfitt tíðarfar og loks snjóleysi komu í veg fyrir að mótið gæti farið fram við venjulegar skíða aðstæður. Því frestaðist móti og breyttist á endanum í hjólakskíðamót. Líklega fyrsta hjólaskíðamótið í Reykjavík sem bara er ætlað fyrir börn og unglinga.

Mótið fór fram í Kópavogi á svæðinu í Kringum Lindakirkju og Salaskóla. Frábærar aðstæður fyrir hjólaskíði og hægt að leggja nokkuð krefjandi braut. Þó að brautin vær krefjandi stóðu krakkarnir, sem mörg hver eru að stíga sín fyrstu skrefa á hjólaskíðum, mjög vel og allir komu heilir í mark.

Krakkar 12 ára og eldri gengu hefðbundið um það bil 6 km og þau yngir, 9-11 ára, gengu 3 km frjálst. Þáttakendur voru 12, 6 í hvorum aldursflokki.

Fyrir mót var tilkynnt um leynigest sem kæmi á mótið og yrði iðkendunum til halds og traust. Leynigesturinn reyndist vera okkar eigin Kristrún Guðnadóttir, landsliðskona úr Ulli! Mikil hvatning fyrir krakkana að fá að sjá hana og hafa með í kringum mótið. Takk fyrir komuna Kristrún 😊

Eins og nafið gefur til kynna kemur Sportval að mótinu og leggur til veglega vinninga, páskaegg og útdráttar verðlaun. Þó að langt sé til páska (eða langt síðan það voru páskar) var hefðinni viðhaldið og páskeeggjum, ásamt vinningum, útdeilt.

Skíðagöngufélagið Ullur þakkar Sportval fyrir stuðninginn og hvetur fólk til að kíkja við hjá Óskari og Begga í Sportval, Selásbraut 98.

Hjólaskíðamót Ullar 9. október

TAKIÐ DAGINN FRÁ!!

Hið árlega hjólaskíðamót Ullar fer fram laugardaginn 9. október næstkomandi kl 10.00 (ATH breytt tímasetning, var áður auglýst kl 11).

Við gerum ráð fyrir að vera á sama stað og fyrir 2 árum, á Völlunum í Hafnarfirði, en nánari upplýsingar um braut, staðsetningu, flokka og skráningu koma í næstu viku.

Ath, fullorðnir, 17+, mega einungis keppa á hjólaskíðum með stoppara (ekki á skautahjólaskíðum). Hjálmaskylda er í keppninni.

Hlökkum til að sjá sem allra flesta! 

Barna – og unglingaæfingarnar fara vel af stað

Fyrr í þessum mánuði var ráðinn nýr yfirþjálfari barna- og unglingastarfs ásamt aðstoðarþjálfara. Yfirþjálfarinn heitir Steven Gromatka og honum til aðstoðar verður Guðný Katrín Kristinsdóttir. Guðný kom að þjálfun seinnihluta vetrar (2020-20121) og var fyrir fáeinum árum ein af Ullar krökkunum. Það er því ánægjulegt að fá hana aftur inn í starfið í nýtt hlutverk. Steven hefur komið að þjáfun margra af okkar bestu skíðamönnum og starfaði um nokkurra ára skeið hjá Skíðafélagi Ísafjarðar. Þar áður starfaði hann við þjálfun í Bandaríkjunum.

Með nýju fólki koma nýjar áherslur. Fleiri æfingar á hjólaskíðum, lengri hlaupatúrar, hermiæfingar, leikir og margt fleira á boðstólnum.

Þá hefur foreldraráðið kokkað upp plan fyrir veturinn. Á dagskránni fyrir áramót er nýliðakynning, hjólaskíðamót Sportval, skiptimarkaður, skálagisting og byrjendanámskeið svo eitthvað sé nefnt. Eftir áramót eru flestar helgar lagðar undir mót og annað skemmtilegt. Nánari dagskrá vetrarins verður kynnt síðar.

Nánari upplýsingar um æfingarnar má finna hér.

Haust-fréttabréf Ullar

Kæru Ullungar!

Núna styttist í veturinn og við viljum aðeins fara yfir stöðu mála með ykkur.

Bláfjöll sporlagning
Því miður hefur Skíðasvæðið ekki haft fjármagn til að vinna frekar að brautarmálum sbr. uppsetningu snjógirðinga eða bættri lýsingu. Stefnt er að því að fara í átak í brautarmerkingum sem verða þá tilbúnar fyrir skíðatímabilið núna í vetur.

Bláfjöll aðgangshlið
Aðgangshlið verður sett upp fyrir veturinn við skíðagöngusvæðið

Bláfjöll salernismál
Stjórn Skíðasvæðanna samþykkti að ráðast í byggingu salernishúss sem myndi þjóna skíðagönguiðkendum og nýrri Gosalyftu. Umrætt hús er nú í útboðsferli og standa vonir enn til að það geti risið fyrir skíðatímabilið. Þetta væri gjörbæting á salernisaðstöðu okkar.

Bláfjöll skálamál
Síðastliðinn vetur ákvað stjórn Ullar að hefja undirbúning á byggingu nýs skála undir starfsemina, en ljóst er að núverandi aðstaða er löngu sprungin. Nýr skáli yrði um 80fm að gólffleti og myndi stórbæta almenna nestisaðstöðu, aðstöðu fyrir barna- og unglingastarf, ásamt námskeiða- og keppnishaldi. Þar sem núverandi byggingarreitur var takmarkaður af snjóflóðavarnalínu sem nú hefur verið breytt, þarf að sækja um nýja staðsetningu byggingarreits. Framkvæmdir við nýjan skála munu því ekki hefjast fyrr en næsta sumar.

Námskeiðahald
Fyrstu námskeið vetrarins hefjast í síðasta lagi í janúar. Við sendum út nánari upplýsingar í nóvember.

Starfsmaður Ullar
Elsa Gunnarsdóttir verður áfram með okkur í vetur og byrjar um miðjan nóvember.

Heiðmörk sporlagning
Sem fyrr mun Ullur í samvinnu við Skógræktarfélag Reykjavíkur og Reykjavíkurborg sjá um sporlagningu í Heiðmörk (sem reyndar var engin í fyrra vegna snjóleysis). Síðastliðið haust var kláruð tengibraut frá Elliðavatnsbæ/Helluvatni að göngusporinu okkar, en um er að ræða sirka 2,3km leið meðfram vatnsverndarsvæðinu. Með þessari framkvæmd sem kostuð var af OR er tryggt aðgengi að göngubrautinni þó að veginum sé lokað vegna vatnsverndarsjónarmiða og á sama tíma mun bílastæðum fjölgað til muna. Þessi braut er skemmtileg viðbót við núverandi 4 og 8km hringi og bíður líka upp á að hægt sé að útbúa styttri og auðveldari hringi nær Elliðavatnsbænum. Hafinn er undirbúningur á annarri tengibraut að Elliðavatni (Þingnesi) sem myndi þá búa til 5, 9 og 13km hring frá Elliðavatnsbænum. Í fyrra var fjárfest í staðsetningarbúnaði (www.skisporet.no) fyrir sporann okkar sem hægt er að tengja við heimasíðu og Facebook síður Ullar og Heiðmerkur. Með þessu ætti upplýsingagjöf um stöðu brautarlagningar að batna til muna. Stefnum á hreinsunardag í Heiðmörk laugardaginn 2. okótber n.k., auglýsum nánar hér á næstu dögum.

Barna- og unglingastarf Ullar
Gaman að segja frá því að Steven Gromatka hefur verið ráðinn yfirþjálfari og verður Guðný Katrín Kristinsdóttir aðstoðarþjálfari með honum. Veturinn 2021-2022 verða reglulegar æfingar fyrir börn og unglinga. Við viljum endilega fá fleiri krakka í hópinn og er öllum velkomið að koma og prófa. Endilega hafið samband við okkur ef þið hafið áhuga í gegnum netfangið krakkaullur@gmail.com. Einnig má hringja í 848-8691.
Krökkunum er skipt í þrjá aldurshópa:

  • 6-8 ára (2015-2013): Æfingar hefjast eftir áramót, einu sinni í viku um helgar. Æfingatímabilið er frá janúar til lok apríl.
  • 9-11 ára (2012-2010): Æfingar tvisvar í viku fyrir áramót og 3 í viku eftir áramót. Miðvikudagar kl. 17.30 og sunnudagar kl. 9.
  • 12 ára og eldri (2009 og eldri): Æfingar 2-3 í viku með þjálfara og æfingaplan fyrir eigin æfingar þess á milli.

Æfingatímabilið er 10 mánuðir. Miðvikudagar kl. 17.30, föstudagar kl. 17.30 og sunnudagar kl. 9.
Á meðan enginn er snjórinn eru æfingar á höfuðborgarsvæðinu eða í Heiðmörk en þegar snjórinn kemur færum við okkur yfir í Bláfjöll eða Heiðmörk. Æfingaáætlun fyrir hverja viku auk staðsetningar á æfingum er birt í byrjun vikunnar. Þar sem staðsetning æfinga er breytileg þá er tilkynnt um staðsetningu fyrir hverja æfingu á Facebook síðu hópsins.

Mótahald
Það stendur til að halda hjólaskíðamót núna í haust, nánari tímasetning verður auglýst síðar. Fyrirhugað er að halda Bikarmót/FIS mót í Bláfjöllum og svo er Bláfjallagangan á dagskrá laugardaginn 19. mars 2022. Stefnum einnig að því að vera með að minnsta kosti eitt innanfélagsmót. Vonum að við getum haldið áætlun hvað varðar mótin í vetur.

Félagsskírteini og 20% afsláttur af árskortum
Félagsgjaldið er 4.200 krónur fyrir veturinn 2021 – 2022 og birtast skírteinin rafrænt í Aur appinu. Ef þú ert félagi í Ulli þá nýtur þú afsláttarkjara hjá mörgum af okkar velunnurum og aðstoðar við uppbyggingu skíðagöngunnar á höfuðborgarsvæðinu. Hér er hægt að gerast félagi í Ulli.
Árskort í brautina eru á 20% afslætti út desember og hægt að ganga frá kaupum hér. Einnig er alltaf hægt að kaupa stakan dagsmiða á sama stað.

Við hlökkum til vetrarins með ykkur, sjáumst í sporinu!

Gleðifréttir úr fjallinu

Það er ánægjulegt að tilkynna að Skíðasvæðið / Samtök Sveitarfélaga á Höfuðborgarsvæðinu hafa samþykkt fjárveitingu vegna salernishúss fyrir skíðagönguiðkendur í Bláfjöllum og aðra notendur suðursvæðisins.  Staðsetning hússins verður við horn bílastæðisins og skíðagöngusvæðisins og standa vonir til að húsið verði risið fyrir næsta vetur.   

Skíðagöngufélagið Ullur er búið að berjast fyrir þessu verkefni í mörg ár og því afar ánægjulegt að það sé í höfn, enda mun það gjörbreyta aðstöðu fyrir skíðagönguiðkendur.

Dæmi um mögulega útfærslu – Salernishús við Esjurætur

Aðalfundur Ullar 19. maí 2021

Aðalfundur Skíðagöngufélagsins Ullar verður haldinn í húsnæði ÍSÍ sal D, Íþróttamiðstöðinni í Laugardal, miðvikudaginn 19. maí 2021 kl. 20:00.
 
Vegna fjöldatakmarkana þá biðjum við ykkur að skrá ykkur hér: https://bit.ly/2ShFrDZ
 
Málefni sem félagar óska eftir að tekin verði fyrir á fundinum skulu hafa borist stjórn minnst viku fyrir aðalfund á netfangið stjornullar@gmail.com. Mál sem berast eftir að sá frestur er liðinn verða ekki tekin fyrir nema 2/3 fundarmanna samþykki það. Rétt til fundarsetu með öllum réttindum hafa félagar.
 
Núverandi stjórn Ullar býður sig fram til áframhaldandi stjórnarsetu.
 
Dagskrá aðalfundar:
1. Fundarsetning
2. Kosnir fundarstjóri og fundarritari
3. Lögð fram ársskýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár og umræða um hana
4. Skýrslur nefnda
5. Lagðir fram endurskoðaðir ársreikningar, umræða og atkvæðagreiðsla
6. Fjárhagsáætlun næsta starfsárs
7. Lagabreytingar ef fyrir liggja
8. Stjórnarkjör:
a) kosinn formaður
b) kosnir fjórir aðalstjórnarmenn
c) kosnir tveir varamenn í stjórn
d) kosinn skoðunarmaður og annar til vara
9. Aðrar tillögur sem borist hafa til stjórnar
10. Önnur mál
11. Fundarslit
 
Félagar í Ulli eru hvattir til að mæta og taka þátt í að móta starf félagsins.

Þriðja degi SMÍ lokið

Þriðja og síðasta degi Skíðalandsmóts Íslands (SMÍ) er nú lokið í Hlíðarfjalli á Akureyri. Ræst var með hópstarti og var gengið með hefðbundinni aðferð.

Hjá körlunum voru gengnir 10 km og Íslandsmeistari varð enn og aftur Snorri Einarsson frá Ulli en hann sigraði með miklum yfirburðum. Annar varð Dagur Benediktsson frá Ísafirði og þriðji varð svo Ragnar Gamalíel Sigurgeirsson frá Akureyri. Í kvennaflokki voru gengnir 5 km og sigraði Linda Rós Hannesdóttir frá Ísafirði, Gígja Björnsdóttir Akureyri varð önnur og Fanney Rún Stefánsdóttir Akureyri varð þriðja. Hægt er að skoða nánari úrslit hér.

Ullur óskar Snorra sérstaklega til hamingju með góðan árangur, sem er gott veganesti þegar æfingar hefjast fyrir Ólympíuleikana í Beijing 2022.

Sigurvegarar í karlaflokki, 10km hefðbundið – Mynd: ski.is

Öðrum degi SMÍ lokið

Öðrum degi Skíðalandsmóts Íslands (SMÍ) er nú lokið en keppt er í Hlíðarfjalli á Akureyri. Keppt var með frjálsri aðferð og gengu karlarnir 15 km en konurnar 10 km. Hlutskarpastur karla megin var Ullungurinn Snorri Einarsson en kvenna megin var það Gígja Björnsdóttir frá Akureyri. 

Hægt er að lesa nánar um úrslit dagsins hér.

Snorri Einarsson, Ulli – Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson

Á morgun lýkur svo keppni en þá verður keppt í 10/5 km göngu með hefðbundinni aðferð og hefst keppni kl. 17:00