Um vefinn

Vefur Skíðagöngufélagsins Ulls, sem tók við af eldri vef 16. nóvember 2010, er hannaður í kerfi sem nefnist WordPress. Það var upprunalega blogg-kerfi en hefur þróast mjög og er nú víða notað til að smíða viðamikla vefi með föstum síðum og öðru sem tilheyrir slíkum vefjum. Mikil áhersla var lögð á að halda kostnaði í algjöru lágmarki og vefurinn er því hýstur í ókeypis hýsingu hjá http://wordpress.com. Með því móti takmarkast virkni reyndar nokkuð, t.d. eru íslenskar þýðingar á viðmóti ekki fullkomnar og ekki er hægt að hafa fulla stjórn á því hvort krækjur opna nýja gluggað eða efnið birtist í sama glugga. Hægt er að borga fyrir ýmsar viðbætur, svo sem aukið geymslurými og aðgang að vissum forritunarþáttum og einnig væri hægt að nota kerfið til að smíða vef sem vistaður væri á eigin vefþjóni eða hjá vefþjónustu. Ef til vill verður það skoðað síðar ef vefurinn fær góðar móttökur.

Markmið vefsins er að vera öflugt tæki fyrir stjórn og aðra forsvarsmenn félagsins til að miðla upplýsingum til félagsmanna og annarra áhugamanna um skíðagöngu og gefa lesendum vefsins tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri sem athugasemdum við færslur og annað efni. Einnig að miðla ýmsu efni til gagns og ánægju fyrir þá sem vilja stunda skíðagöngu og eðli málsins samkvæmt er megináhersla lögð á höfuðborgarsvæðið.

Svona vefur þarf að vera í sífelldri þróun ef hann á ekki að staðna og úreldast fljótt. Viðbrögð og ábendingar frá lesendum skipta því miklu máli. Með því að nota tölvupóstkrækjur neðst í hægra dálki á vefsíðunum má senda póst annars vegar til stjórnar félagsins og hins vegar til umsjónarmanns vefsins. Látið endilega frá ykkur heyra um það sem ykkur finnst að mætti betur fara!