Snorri Einarsson frá Skíðagöngufélaginu Ulli lauk um helgina keppni á Ólympíuleikunum i Beijing er keppt var í 50 km göngu með frjálsri aðferð. Gangan var reyndar öllu styttri eða 28,4 km vegna veðurskilyrða en kuldi og vindur hefur gert mótshöldurum erfitt fyrir á leikunum.
Skemmst er frá því að segja að árangur Snorra er sögulegur. Aldrei hefur íslenskur skíðagöngumaður náð betra sæti en Snorri náði í í göngunni er hann kom í mark nr. 23, 3 mínútum og 18 sekúndum á eftir sigurvegaranum Alexander Bolshunov frá rússnesku Ólympíunefndinni.
Snorri keppti einnig í liðaspretti, 15 km og 30 km skiptigöngu á leikunum og náði þar einnig góðum árangri:
- 30 km skiptiganga – 29.sæti
- 15 km hefðbundið – 36.sæti
- Liðasprettur 20.sæti
Ljóst er því að þetta er mikil bæting frá seinustu Ólympíuleikum þar sem Snorri náði best 53.sæti.
Kristrún Guðnadóttir frá Ulli keppti einnig á leikunum en hún hafnaði í 74.sæti og verður það að teljast góður árangur í ljósi þess að lenti í alvarlegum hnémeiðslum seinasta vor.
Skíðagöngufélagið Ullur er stolt af þessum fulltrúum okkar á erlendri grundu og óskar þeim til hamingju með árangurinn á leikunum!

