Skautanámskeið á næstunni – ennþá laus pláss.

ATH! Vegna veðurs þurfti að fresta fyrri tímanum. Fyrsti tíminn verður því 17. mars kl. 9 og seinni tíminn miðvikudaginn 20. mars kl. 18. Það eru ennþá laus pláss á námskeiðið.

Nú ætlum við að bjóða upp á skautanámskeið í Bláfjöllum. Tilvalið að skerpa aðeins á tækninni fyrir Strompaskautið sem haldið verður 31. mars.

Þetta verða tveir tímar, kenndir miðvikudaginn 13. mars kl. 18:00 og sunnudaginn 17. mars kl. 9:00 ef veður og aðstæður leyfa.

Skráning á verslun.ullur.is

Mótsboð: Unglingameistaramót Íslands á Akureyri 22. – 24. mars 2019

Helgina 22. – 24. mars næstkomandi fer fram í Hlíðafjalli á Akureyri Unglingameistaramót Íslands. Dagskrá mótsins og allar upplýsingar er að finna á heimasíðu SKA .

Keppendur og aðstandendur eru beðnir um að kynna sér sérstaklega facebook upplýsingasíður mótsins en allar nánari upplýsingar um viðburði tengda mótinu verða tilkynntar á Facebooksíðu mótsins: facebook.com/Unglingameistaramot2019

Mótsboðið fá finna hér Skráningar Ullunga skulu berast á netfangið ullarpostur@gmail.com í síðasta lagi föstudaginn 15. mars kl 12:00.

Andrésar andar leikarnir 2019 – skráning

Þá styttist í hápunkt tímabilsis fyrir okkar yngstu iðkenda, sjálfa Andrésar andar leikana á Akureyri.

Leikarnir fara fram dagana 24. til 27. apríl 2019, hér með er opnað fyrir skráningu á leikana! Athugið að skráningar þurfa að berast fyrir 15. mars.

Skíðagöngufélagið Ullur hvetur alla krakka sem tekið hafa þátt í æfingum í vetur til að skrá sig og vera með!

IMG_6964

Æfingar og námskeið næstu daga.

Ný stök námskeið komin inn á verslun.ullur.is

Nú er loksins hægt að fara á gönguskíðum um Bláfjöll aftur. Búið er að troða 4,5 km braut upp á Heiðarhorn.

Nú eru C og D hóparnir á 6 skipta námskeiðunum að klára síðustu tímana sína og ætlum við að opna fyrir skráningu á nýtt 6 skipta námskeið á morgun. Það verður með aðeins öðru sniði en hin því það verður kennt mánudaga, miðvikudaga og laugardaga á tveimur vikum. Ef þátttaka veður góð ætlum við að reyna að bjóða upp á annað námskeið strax í kjölfarið.

Stök byrjendanámskeið verða vonandi á fimmtudaginn og svo um helgina. Fer eftir veðri. Opnað verður fyrir skráningu á fimmtudagsnámskeiðið í hádeginu á morgun, miðvikudaginn 6. mars. Væntanlega verður opnað fyrir skráningu á helgarnámskeiðin á fimmtudaginn.

Munið svo að það eru skíðagönguæfingar á miðvikudögum kl. 19:30 fyrir almenning sem hefur einhverja reynslu af skíðagöngu eða hefur farið á námskeið. Tilvalið þau sem vilja æfa sig í góðum hópi, t.d. fyrir Íslandsgöngurnar eða aðrar lengri göngur.

Skráning fer fram á https://verslun.ullur.is/

 

Kristrún stendur í ströngu – Austurríki til Kína

sprettur.jpg

Kristrún kemur í mark í sprettgöngu. Mynd: SKÍ

Kristrún Guðnadóttir lauk fyrir skemmstu þátttöku á heimsmeistaramótinu í norrænum greinum í Seefeld í Austurríki.

Kristrún keppti þar í 5 km undankeppni og náði þar frábærum árangri og endaði í 7. sæti, 1:43 mín á eftir fyrstu konu. Sá árangur dugði til að tryggja sig áfram í allar aðalkeppnir mótsins í lengri vegalengdum.

Auk þess að keppa í undankeppninni kepti Kristrún í sprettgöngu með frjálsri aðferð og 10 km göngu með hefðbundinni aðferð.

Í sprettgöngunni náði Kristrún frábærum árangir og endaði í 65. sæti af 110 keppendum, rétt um 18 sek á eftir besta tíma í undanrásum. Sá árangur dugði þó ekki til að komast áfram í úrslitakeppnina en 32 keppendur komast áfram í úrslit auk 6 bestu tímanna þar á eftir. Það er því ljóst að Kristrún var rétt um 10 – 12 sek frá því að komast áfram í úrslit og framtíðin er björt hjá þessari frábæru skíðakonu.

Kristrún lauk svo keppni í 10 km skíðagöngu með hefðbundinni aðferð þar sem hún endaði í 73. sæti.

Frá Austurríki flaug svo Kristrún beint til Kína þar sem hún í dag tekur þátt í sprettgöngu í Bejing. Það er skemmst frá því að segja að hún endaði 34. í undanrásum af 70 keppendum, rétt um 5 sek frá því að komast áfram í úrslit. Samtals mun Kristún keppa í þremur sprettgöngum í Kína.

Formið hjá Kristrúnu er greinilega stígandi í aðdraganda Skíðalandsmóts Íslands sem fram fer á Ísafirði dagana 4. – 7. apríl.

 

Sögulegur árangur hjá Snorra á heimsmeistaramótinu

einarsson03032019fm12013-

Snorri Einarsson gerir sig kláran fyrir 50 km göngu á HM. Mynd: Nordic Focus

Ullungurinn Snorri Einarsson lauk keppni á heimsmeistaramótinu í norrænum greinum í gær með þátttöku í 50 km skíðagöngu með frjálsri aðferð. Með startnúmer 52 í 65 manna hóp var Snorri fyrir gönguna 52. besti skíðamaðurinn á ráslínu sé tekið mið af FIS stigum.

Óhætt er að segja að Snorri hafi útfært gönguna taktískt hárrétt og endað mótið með glæsibrag. Lengst af hélt Snorri sig aftarlega í hópi keppanda og sparaði krafta fyrir lokasprettinn. Við 10 km til 30 km millitíma var Snorri á bilinu 35-40 sæti. Það dró hinsvegar til tíðinda við 41,5 km markið þegar Snorri mælist með 16. besta millitíman og einungis 8,5 km eftir í mark.

Norðmaðurinn Hans Crister Holund hafði á þessum tímapunkti tekið af skarið og náð afgerandi forustu sem þó minnkaði þegar Rússinn Alexander Bolshunov gerði heiðarlega atlögu að fyrsta sætinu. Svo fór að Hans Crister Holund vann og Alexander Bolshunov varð annar.

Þeir sem á eftir komu, þar á meðal Snorri, gengu saman nánast alla leið í mark og keppnin um 3. sætið gríðarlega mikil. Það fór þó svo að Norðamaðurinn Sjur Røthe hrepti 3. sætið einungis 18 sekúndum á undan Snorra sem fylgdi bestu skíðagöngumönnum heimsins fast á hæla og kláraði eina af sínum bestu göngum á ferlinum í 18. sæti, 1:15 mín á eftir sigurvegaranum. Fyrir gönguna fékk Snorri 16 fis-stig sem er hans besti árangur Íslendings frá upphafi.

Það má segja að allt hafi gengið upp. Snorra gekk vel að fá í sig næringu og drykk á meðan á göngunni stóð en það er gríðarlega mikilvægt í göngu sem þessari. Við aðstæður eins og í göngunni, mikill hiti og sól, er hætta á að líkaminn ofþorni og þrek minnki til muna. Skíðin voru mjög góð og skíðaskipti gengu hratt og vel fyrir sig, en keppendum er frjálst að skipta um skíði með reglulegu millibili í göngunni. Snorri skipti einu sinni um skíði eins og flestir aðrir keppendur og hafði því góð skíði alla gönguna.

Það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir hvílíkt afrek þetta er. Í raun getum við sagt að Ullur og Ísland hafi í gær átt 18. besta skíðamann í heimi!

Skíðagöngufélagið Ullur óskar Snorra til hamingju með frábæran árangur!

feature30319vt036

Snorri, númer 52 ofarlega til vinstri, í harðri baráttu í 50 km göngu. Mynd: Nordic Focus

 

FIS/Bikarmót á Ólafsfirði 8. – 10. mars 2019

Dagana 8. – 10. mars næstkomandi fer fram á Ólafsfirði alþjóðlegt FIS-mót sem jafnframt er Bikarmót SKÍ.

Mótið er fyrir 13 ára og eldri. Athugið að keppendur 17 ára og eldri þurfa að hafa FIS-leyfi til að taka þátt í FIS móti.

Skráningar fara fram í gegnum félögin svo þeir Ullungar sem hyggja á þátttöku þurfa að senda póst á ullarpostur@gmail.com í síðasta lagi þriðjudaginn 5. mars 2019 kl 12:00.

Mótsboð með dagskrá og nánari upplýsingum má finna hér

 

Stakt byjendanámskeið 16. febrúar kl. 12:00. ATH! Það er fullt á námskeiðið

Við munum bjóða upp á stakt byrjendanámskeið laugardaginn 16. febrúar kl. 12:00 ef veður leyfir.

Verð á námskeiðið er kr. 3.000,- og leiga á skíðum, skóm og stöfum kr. 2.000,- fyrir þátttakendur.

Námskeiðið fer fram í Bláfjöllum og tekur u.þ.b. eina klukkustund.

Takmarkaður fjöldi.

Skráning fer fram á https://verslun.ullur.is/

 

Stök byrjendanámskeið helgina 9.-10. febrúar.

Við ætlum að vera með stök byrjendanámskeið um helgina.

Á laugardaginn kl. 12:00 og 14:00 og á sunnudaginn kl. 12:00.

Verð á hvert námskeið er kr. 3.000,- og leiga á skíðum, skóm og stöfum kr. 2.000,- fyrir þátttakendur.

Námskeiðið fer fram í Bláfjöllum og tekur u.þ.b. eina klukkustund.

Takmarkaður fjöldi kemst á hvert námskeið.

Skráning fer fram á https://verslun.ullur.is/