Heiðmörk

Heiðmörk,

Fyrr í dag barst okkur ábending frá Veitum um að vegurinn um Heiðmörk sé lokaður ökutækjum (með lokunarskiltum við Elliðavatnsbæ) . Fyrir mistök var vegurinn að skíðaspori Ullunga ruddur en Veitur hafa farið fram á að vegurinn sé lokaður þar til snjóa leysir.  Umrædd lokun er vegna vatnsverndarsjónarmiða þ.e. vegna hættu á að bílar fari útaf veginum og skapi þannig mögulega olíumengun.  Skíðagöngufélagið Ullur og Skógræktarfélag Reykjavíkur hafa óskað eftir að Reykjavíkurborg/Veitur endurskoði þessa afstöðu sína og íhugi frekar reglulega snjóhreinsun enda ætti þá að vera lítil hætta á umræddum umferðar-/mengunarslysum. 

Meðan á þessari lokun stendur er erfitt um vik að komast að skíðaspori Ullunga enda engin greið leið fyrir snjósleða/skíðaspora frá Elliðavatni og um 4 km gangur eftir veginum. 

Á meðan troðna sporið nýtist ekki vegna fyrrgreindra ástæða er vert að benda fólki á að hægt er að ganga á utanbrautarskíðum frá Elliðavatnsbænum eða auðvitað að leggja leið sína í hina ágætu aðstöðu okkar í Bláfjöllum.

Nefndin

Heiðmörk uppfært

Heiðmörk
Okkur voru að berast upplýsingar frá Veitum að vegurinn um Heiðmörk er lokaður vélknúnum ökutækjum með tilliti til vatnsverndar. Fólk er því beðið um að keyra ekki uppá bílastæðið sem er við upphaf göngubrautar. Stöndum öll saman og virðum þessar takmarkanir! Það er afar mikilvægt að vernda vatnsbólin og nú sem aldrei fyrr í þessum válegu aðsæðum sem við búum við. Bílastæði eru til staðar við Elliðaárbæ. Til að ekki gæti misskilnings þá er ekki troðið þaðan uppað gönguspori Ullunga við Hjallabraut en troðinn var lítill hringur við bæinn fyrir krakkana. Það er hins vegar holótt braut.

Sportvalsgangan haldin í fyrsta sinn

Það var góð stemning í Bláfjöllum á laugardaginn þegar fyrsta Sportvalsgangan fór fram. Ekki skemmdi fyrir að veðrið var einfaldlega uppá 10, brakandi sól og stafa logn!

Til að breyta út af vananum var lögð þrautabraut sem yngstu iðkendurnir fóru einu sinni en þrautabrautin var svo tvinnuð saman við lengri og meira krefjandi braut fyrir eldri krakkana. Þannig fengu allir braut við hæfi og fína æfingu.

Verðlaunin voru ekki af verri endanum, páskaegg og veglegir vinningar frá Sportval. Þegar í mark var komið fengu keppendur páskaegg með númeri límdu á. Númerið gaf svo til kynna hvaða vinning á verðlaunaborðinu keppandinn fékk að launum. Skemmtilegt fyrirkomulag!

Að lokum voru pylsur grillaðar ofan í keppendur og sólarinnar notið í frábærum félagsskap.

Það er verslunin Sportval sem sá um og hélt mótið. Sportval er á sínu öðru starfsári og hefur séð Reykvíkingum fyrir Madshus skíðum, Craft fatnaði, Rode skíðaáburði og  Bliz skíðagleraugum. Frábærar vörur og góð þjónusta.

Skíðagöngufélagið Ullur þakkar Sportval fyrir frábært framtak!

Heiðmörk

Staðan í dag, föstudag 13. mars, í Heiðmörk er sú að til staðar er ótroðið spor. Búið er að loka fyrir umferð en skíðafólk er velkomið á svæðið. Hægt er að leggja bílunum við Elliðavatn/Helluvatn.

Bláfjallagöngunni frestað til 25. apríl

Kæru þátttakendur í Bláfjallagöngunni. Í ljósi nýjustu frétta og fordæmalausra aðstæðna vegna Covid-19 þá höfum við ákveðið að fresta göngunni til laugardagsins 25. apríl nk.

Skráningargjöld verða ekki endurgreidd, sjá greiðsluskilmála .

Ákvörðunin verður endurmetin ef þarf eftir 30 daga. Við vonum að þetta gangi upp og við getum komið saman 25. apríl. Látum ykkur vita um leið og eitthvað nýtt kemur í ljós.

Baráttukveðjur.

Byrjendanámskeið sunnudaginn 15. mars 2020

Sunnudaginn 15. mars stendur Ullur fyrir námskeiði í skíðagöngu, í Bláfjöllum, fyrir byrjendur og aðra sem vilja ná svolítið betri tökum á göngutækninni. Námskeiðið hefst kl. 12:30 og stendur í rúma klukkustund. Smelltu hér til að skoða staðsetningu Ullarskálans í Bláfjöllum, þar sem æfingarnar fara fram.

Takmarkaður fjöldi þátttakenda er á hvort námskeið og verður leiðbeinandi á hverja 7-8. Námskeiðið kostar 3.000 kr., þeir sem þurfa að fá lánaðan búnað greiða 2.000 kr. að auki  en ekki má treysta því að fleiri en 15 geti fengið lánaðan búnað á hvoru námskeiði.

Skráning og greiðslur

Nauðsynlegt er að fólk skrái sig á námskeiðin og má gera það með því að fara inn á skráningar- og greiðslusíðu félagsins sem er verslun.ullur.is. Skráningar taka gildi þegar greiðsla skráningargjalds hefur farið fram.

Vakin er athygli á því að eins og á öðrum skíðasvæðum þarf að kaupa skíðakort sem gildir í brautirnar í Bláfjöllum en það er ekki innifalið í námskeiðum sem haldin eru á svæðinu.

Smelltu hér til að skoða gjaldskrá skíðasvæðisins í Bláfjöllum, en dagskort kostar 1080 kr. Hægt er að greiða fyrir dagskort með korti í skála Ullar.

Bláfjallagangan og COVID-19

Við sem stöndum að Bláfjallagöngunni er öllum umhugað um heilsuna og okkur er mjög umhugað um ykkar heilsu.

Vegna COVID-19 faraldursins viljum við því biðja fólk sem finnur fyrir flensueinkennum að vera heima og sleppa því að mæta í gönguna, þeir sem mæta sleppi snertingum og handabandi og það er gott að halda 2-3 metra bili á milli í brautinni bæði vegna COVID-19 og það er líka öryggisatriði ef eitthvað kemur upp á.

Við ætlum að halda okkar striki varðandi gönguna en munum í ljósi aðstæðna ekki vera með kaffihlaðborð. Staðan er tekin á hverjum degi fram að göngu og við munum láta vita um leið og eitthvað breytist.

Öllum þátttakendum verður boðið í sund í Ásvallalaug, fá sundpoka, Happ+ góðgæti og fleira skemmtilegt.

Skráning er ennþá í fullum gangi hér: netskraning.is/blafjallagangan

Hlökkum til og góða skemmtun!

Íslandsgönguæfingar

Við minnum á Íslandsgönguæfingarnar hjá okkur í vetur. Æfingarnar eru á miðvikudögum kl. 18:00 í Bláfjöllum.

Ætlast er til að þátttakendur hafi einhverja reynslu af skíðagöngu og/eða lokið a.m.k. einu 6 skipta námskeiði hjá Ulli. Verð fyrir mars og apríl er kr. 12.000.-

Aðild að félaginu Ulli er skilyrði fyrir skráningu.

Hægt er að skrá sig á æfingarnar hér.

Heiðmerkurfréttir

Nýjustu fréttir úr Heiðmörk:

„Það er búið að fara stóra hringinn og spora á flestum stöðum og ætti þetta að vera súper flott á morgun (í dag þriðjudag), sumstaðar er það lítill snnjór að þar er bara þjappað.
Verum öll jákvæð og hress með þetta, það er einn mjög hættulegur staður sem er eftir rúman 1km og er beygjan niður á langa beina klaflan þar sem eru mjög þétt há tré, endilega passið ykkur þar og svo aðvitað á móa köflunum.

kv. Sporagengið“