Bláfjallagangan

Bláfjallagangan 2019

Bláfjallagangan 2018

Göngunni var frestað til 16. – 18. mars

Bláfjallagangan 2017

 

Bláfjallagangan 2015

Smellið á myndina til að stækka hana!

Smellið á myndina til að stækka hana!

Bláfjallagangan 2015 fór loksins fram laugardaginn 28. mars og var þá búið að fresta henni í tvígang. Frestun og svo skammur fyrirvari, þegar tekin var ákvörðun um að hafa gönguna í tengslum við UMÍ hafði án efa áhrif á þátttökuna þar sem fólk er búið að gera áætlanir langt fram í tímann um hvernig það ætlar að ráðstafa frídögum. Þátttaka varð því minni en vonir stóðu til. Veður var hins vegar eins og best verður á kosið svo og snjóalög. Sporið var einnig lagt með það í huga að hafa það fyrir almenning, engar brattar brekkur en eðlilega hentaði það fólki misjanflega og nokkrir kappar höfðu á orði að nota hefði mátt landslagið betur. Sporið var í grófum drátturm tvær 5 km lykkjur sem mættust  á móti skála Ullunga og hentaði það þeim sem gengu 5 km að fara bara aðra lykkjuna en aðrir gengu einn eða tvo hringi. Kaffisamsæti og verðlaunaafhending var í skála ÍR-Víkings og hefðu fleiri mátt mæta þar því nóg var að bíta og brenna. Sigurvegari í kvennaflokki 20 km var Katrín Árnadóttir og í karlaflokki Sævar Birgisson og fengu þau farandbikar. Öllum þátttakendum svo og starfsliði er þakkað fyrir ánægjulegan dag.
Þóroddur, formaður Ullunga

Úrslit í Bláfjallagöngunni 2015 má finna hér:  Úrslit

 

Bláfjallagangan 2014

Bláfjallagangan 2014

Smellið á myndina til að stækka hana!

Bláfjallagangan 2014 fór fram laugardaginn 15. febrúar. Jafnframt Bláfjallagöngunni fór fram bikarmót í göngu fyrir alla aldurshópa 14 ára og eldri. Það flækti nokkuð mótshaldið að halda tvö mót samtímis þar sem sumir kepptu í öðru, aðrir í hinu og enn aðrir í báðum samtímis. Allt fór þó vel að lokum.

Bláfjallagangan er almenningsganga fyrir fólk á öllum aldri, jafnt byrjendur sem lengra komna. Í boði voru fjórar vegalengdir, 1 km, 5 km, 10 km og 20 km, og þeir sem luku 20 km göngu fengu stig í stigakeppni Íslandsgöngunnar. Samkvæmt reglum Íslandsgöngunnar eru það aðeins 16 ára og eldri sem mega ganga 20 km, þeir sem yngri eru urðu að láta sér nægja 10 km eða 5 km.
Gangan hófst við skála Ullunga kl. 13:00 en þeir, sem ekki höfðu áður gengið 20 km göngu á skemmri tíma en tveimur klukkustundum, áttu þess kost að byrja gönguna hálftíma fyrr, eða kl. 12:30. Það sama gerðu yngstu keppendurnir sem gengu 1 km.

Metþátttaka var í Bláfjallagaöngunni, 86 luku einhverri vegalengd að þessu sinni. Það mátti þó ekki tæpara standa að metið félli því árið 2009 voru keppendur 85.

Eftir gönguna var verðlaunaafhending og veitingar í skála Breiðabliks. Allir þátttakendur fengu viðurkenningu og einnig voru útdráttarverðlaun. Á myndavef Ullar (krækja í hægri dálki) má sjá fjölda mynda úr göngunni og úrslit má finna hér:   Úrslit

Brautin 2013

Brautin í Bláfjallagöngunni 2013.
Smellið á myndina til að stækka hana!

Bláfjallagangan 2013

Bláfjallagangan 2013 fór fram í grennd við skála Ullar í Bláfjöllum laugardaginn 16. febrúar 2013.  Gangan er liður í Íslandsgöngunni, almenningsmótaröð Skíðasambands Íslands. Gengið var með hefðbundinni aðferð (ekki leyfilegt að skauta). Fjórar vegalengdir voru í boði: 20 km (sem gefur stig í Íslandsgöngunni), 10 km, 5 km og 2 km sem var ætlað fyrir yngstu keppendurna. Eins og í síðustu göngu var þeim sem töldu sig þurfa meira en 2 klst. til að ljúka 20 km göngu gefinn kostur á að hefja gönguna hálfri klukkustund fyrr en þeir sem hugðust vera fljótari. Nokkrir nýttu sér það.

Lagður var 5 km hringur sem var genginn eins oft og þurfti til að ná réttri vegalengd. Markið var við skála Ullar, fyrst var genginn stór hringur og í lok hvers hrings dálítil slaufa innan í stóra hringnum. Kort af brautinni má sjá hér til hliðar.

Þátttakendur voru 56 og þar af gengu 32 lengstu vegalengdina sem gaf stig til Íslandsgöngu. Fljótust til að ljúka 20 km göngu voru þau Katrín Árnadóttir SFÍ og Martin Matzner Ulli og fengu þau farandbikara. Úrslit má sjá hjá hér: Úrslit í Bláfjallagöngunni 2013. Myndir úr göngunni má finna á myndavefnum.

Að göngu lokinni fór fram verðlaunaafhending í skála Breiðabliks og boðið var í myndarlegt kaffihlaðborð.

Bláfjallagangan 2012

Sævar og Sigríður Drífa fengu farandbikara

Sævar Birgisson og Sigríður Drífa Þórólfsdóttir fengu farandbikara

Bláfjallagangan 2012 fór fram í ágætu veðri og skíðafæri annan páskadag, 9. apríl. Fyrirhugað hafði verið að halda hana fyrstu helgi í mars en vegnaslæmrar veðurspár var fallið frá því. Þegar til kom reyndist svo vera besta veður, þeim sem lögðu leið sína í Bláfjöll til mikillar ánægju en ýmsir bölvuðu í hljóði. 44 keppendur hófu gönguna og 41 lauk henni. Úrslit má sjá hér:  Úrslit í Bláfjallagöngunni 2012
Sú nýbreytni var tekin upp að veita farandbikara þeim karli og þeirri konu sem gengu 20 km á skemmstum tíma. Það voru þau Sævar Birgisson, Skíðafélagi Ólafsfjarðar, og Sigríður Drífa Þórólfsdóttir, Skíðafélagi Strandamanna, sem urðu fyrst til að hampa nýju bikurunum og er ekki annað að sjá á myndinni hér fyrir ofan en að þeim hafi líkað það vel.

Bláfjallagangan 2011

Bláfjallagangan 2011 fór fram í Bláfjöllum laugardaginn 19. febrúar, viku síðar en upphaflega hafði verið áætlað vegna erfiðra veðurskilyrða. Á keppnisdaginn var lokað í Bláfjöllum vegna hvassviðris en engu að síður tókst gangan vel. Lagður hafði verið 4,5 km hringur um Neðri-Sléttu, niiður að gamla bílastæðinu og „upp fyrir hólinn“, um slóðir þar sem þokkalegt skjól er að fá fyrir hvassri austanáttinni.

41 keppandi lauk göngunni og er heildarúrslit að finna hér. Að göngu lokinni fór fram verðlaunaafhending í Ármannsskálanum og þar var einnig boðið upp á veitingar.

Bláfjallagangan 2010

Vegna fádæma snjóleysis á suðvesturhorni landsins reyndist ógerlegt að halda Bláfjallagönguna í Bláfjöllum að þessu sinni. Stjórn félagsins gafst þó ekki upp fyrir náttúruöflunum og gangan var haldin á Siglufirði 20. mars 2010 en Unglingameistaramót Íslands, sem átti að vera í Bláfjöllum, var einnig flutt til Siglufjarðar. Gangan fór vel fram, 35 luku keppni og má sjá úrslitin hér. Er Siglfirðingum þökkuð gestrisnin.

Bláfjallagangan 2009

Bláfjallagangan 2009Bláfjallagangan fór fram 14. febrúar 2009 og tókst einstaklega vel þrátt fyrir að veðrið væri ekki alveg upp á það besta. Fjöldi þátttakenda fór fram úr björtustu vonum en 85 luku keppni.

Bláfjallagangan 2008

Bláfjallagangan fór fram 23. febrúar 2008 og var það í fyrsta skipti sem Skíðagöngufélagið Ullur stóð fyrir göngunni. Gangan tókst vel, rúmlega 40 þátttakendur luku keppni.

Bláfjallagangan 2007

Til stóð að Bláfjallagangan færi fram í mars 2007 en nauðsynlegt reyndist að aflýsa henni vegna erfiðra skilyrða.

Ein athugasemd við “Bláfjallagangan

  1. Bakvísun: Handleggsbrot í Bláfjallagöngu | FYRIRMYNDARHÚSMÓÐIRIN

Ummæli eru ekki leyfð.