Staðan í Íslandsgöngunni

Íslandsgangan 2017
Það hefur ekki gengið vandræðalaust að halda Íslandsgöngur vetrarins. Fjarðargöngunni þurfti að fresta um óákveðinn tíma vegna snjóleysis. Hermannsgöngunni var frestað vegna óhagstæðs veðurs en hún fór fram viku síðar. Bláfjallagöngunni var frestað um þrjár vikur vegna þess að svo mikið hafði snjóað að ógerningur var að opna veginn upp í Bláfjöll og undirbúa svæðið í tíma. Strandagangan fór hins vegar fram á tilsettum tíma. Og í annarri tilraun tókst að ljúka Bláfjallagöngunni með glæsibrag og metfjölda þátttakenda, 74 fengu Íslandsgöngustig.
Svo fór að lokum að Fjarðargangan og Orkugangan féllu niður en vetrinum lauk með Fossavatnsgöngu sem var fjölmennari og glæsilegri en nokkru sinni fyrr. Metfjöldi, eða 210, fékk Íslandsgöngustig í Fossavatnsgöngunni. En þrátt fyrir það varð heildarfjöldi þátttakenda í Íslandsgöngunni lítið eitt minni en í fyrra, nú voru það 257 sem tóku þátt í einhverri göngu en voru 263 í fyrra. Það má rekja til þess hve fáir gengu á Norðurlandi, þátttakendur í Hermannsgöngunni voru þriðjungi færri en í fyrra og Fjarðargangan og Orkugangan féllu niður eins og áður sagði. Lokastöðuna úr þessum fjórum göngum vetrarins má sjá með því að smella á krækjuna hér fyrir neðan.

Lokastaðan 2017 

Íslandsgangan 2016.   Þátttakendur urð miklu fleiri en nokkru sinni fyrr eða 263. Munar þar mest um að 184 gengu 50 km í Fossavatnsgöngunni.

Lokastöðuna má sjá hér:   Lokastaðan 2016

Íslandsgangan 2015.  Þátttakendum fjölgaði nokkuð frá árinu áður en nú komust 145 nöfn í töfluna.

Lokastöðuna má sjá hér:   Lokastaðan 2015

Íslandsgöngunni 2014.  Flestar göngurnar tókust vel, veður setti þó strik í reikninginn fyrir Strandagönguna því ótryggt veðurútlit og ófærð varð til þess að færri treystu sér til að koma til Hólmavíkur en ella. Þátttakendum í Íslandsgöngunni fjölgaði nokkuð frá fyrra ári en nú komust 133 nöfn í stigatöfluna. Flestir fengu stig í Fossavatnsgöngunni eða 73 en Bláfjallagangan hefur sótt mjög í sig veðrið með 58 þátttakendur. Hermannsgangan varð í þriðja sæti að þessu sinni með 33 keppendur.

Lokastöðuna má sjá hér:   Lokastaða 2014

Íslandsgöngunni 2013 lauk að venju með Fossavatnsgöngunni á Ísafirði sem fór fram laugardaginn 4. maí. Vegna mjög óhagstæðra veðurskilyrða neyddust skipuleggjendur til að breyta göngunni frá því sem fyrirhugað hafði verið. Í stað þess að hefja gönguna á Breiðadalsheiði var eingöngu gengið um Seljalandsdal með rásmark og endamark við skíðaskálann. Lagður var 15 km hringur og í stað 50 km göngu voru gengnir þrír hringir eða 45 km. Í stað 20 km göngu var genginn einn hringur og í stað 7 km göngu var lögð 2,5 km braut. Lengd 10 km göngu var óbreytt. Skipuleggjendur og brautarstjórar eiga mikið hrós skilið fyrir að leysa erfið vandamál eins vel og raun var á.
Alls hlutu 115 stig í Íslandsgöngunni veturinn 2013 og að þessu sinni fengu flestir stig í Fossavatnsgöngunni eða 50. Næst kom Strandaganga þar sem 37 fengu stig.

Lokastöðuna má sjá hér:   Lokastaða 2013

Veturinn 2012 féll Hermannsgangan niður vegna veður en öðrum göngum tókst að ljúka. Það stóð þó tæpt með Bláfjallagönguna, henni var frestað vegna slæms veðurútlits og ekki tókst að finna annan dag fyrr en annan í páskum. Sá dagur hefur vissulega ýmsa galla en gangan fór þó vel fram við ágætar aðstæður. Lokastöðu í stigakeppninni má sjá með því að smella á krækjuna hér fyrir neðan.

Lokastöðuna má sjá hér:   Lokastaða 2012