Íslandsgangan

Auglýsing Íslandsgöngunnar 2017. Smellið á myndina til að stækka hana.

Íslandsgangan er röð skíðagöngumóta sem trimmnefnd Skíðasambands Íslands hefur efnt til árlega síðan 1985. Henni er ætlað að höfða til allra sem áhuga hafa á skíðaíþróttum, bæði þeim sem leitast eftir ánægjulegri og hollri útiveru og eins metnaðarfyllra keppnisfólki.

Í mótaröðinni geta verið allt að sex skíðagöngumót sem haldin eru víðs vegar um landið. Í hverri göngu eru í boði fleiri en ein vegalengd þannig að allir eiga að geta fundið brautir við sitt hæfi, bæði þrautþjálfað keppnisfólk, trimmarar og jafnvel hreinir byrjendur. Markmiðið er að ná til sem allra flestra þar sem hver og einn getur verið með á eigin forsendum. Þeir, sem ganga lengstu vegalengd sem er í boði í hverju móti, taka þátt í stigakeppni mótaraðarinnar og í lok síðasta móts vetrarins eru krýndir stigameistarar. Í stigakeppninni er keppt í fjórum aldursflokkum: 17-34 ára, 35-49 ára, 50-59 ára og 60 ára og eldri, bæði í kvenna- og karlaflokkum. Eftir hvert mót fá allir þátttakendur verðlaunapeninga fyrir framgöngu sína, auk þess sem þrír fyrstu menn í hverjum flokki eru heiðraðir sérstaklega.

Samkvæmt reglugerð um Íslandsgönguna skal lengsta vegalengd í hverri göngu vera a.m.k. 20 km. Á síðari árum hafa lengri göngur  komið til sögunnar. Þannig hefur 24 km braut verið í boði í Hermannsgöngunni á Akureyri, í Fossavatnsgöngunni á Ísafirði eru lengst gengnir 50 km og á Húsavík hefur hin 60 km langa Orkuganga stundum verið hluti af Buchgöngunni. Í Bláfjallagöngunni, Fjarðargöngunni og Strandagöngunni hefur lengsta vegalengd verið 20 km. En eins og áður hefur komið fram eru styttri brautir einnig í boði í öllum þessum mótum en fyrir þær fást ekki Íslandsgöngustig.

Þátttakendum í Íslandsgöngunni hefur fjölgað verulega á síðustu árum og munar þar mest um stórauknar vinsældir Fossavatnsgöngunnar sem að einhverju leyti má rekja til þess að margir vilja verða Landvættir. Áril 2012 voru þeir sem fengu Íslandsgöngustig 76, árið 2013 voru þeir 115, 133 árið 2014, 145 árið 2015 og 263 árið 2016. Árið 2017 fækkaði þeim þó lítið eitt, urðu 257, þrátt fyrir metfjölda í Fossavatnsgöngunni. Það má rekja til þess hve göngurnar á Norðurlandi komu illa út, þátttakendur í Hermannsgöngunni voru þriðjungi færri en í fyrra og Fjarðargangan og Orkugangan féllu niður. Árið 2018 voru þátttakendur 350 sem er metfjöldi!

Hér má sjá stig keppenda í Íslandsgöngum frá 2012 til 2017:

Stigasöfnun Íslandsgöngunnar

Stig keppenda veturinn 2018 má finna hér og öll úrslit má finna hér.

Það ætti að vera markmið sem allra flestra skíðagöngumanna að taka þátt í mótum Íslandsgöngunnar og Ullungar ættu að setja sér það mark að fleiri en 100 tækju þátt í hverri Bláfjallagöngu.

Bláfjallagangan 2009

Það var myndarlegur hópur sem geystist af stað í Bláfjallagöngunni 14. febrúar 2009. Meðal spretthörðustu manna í startinu eru Siglfirðingurinn Magnús Eiríksson (bláklæddur, nr. 11 en það sést illa) og Ullungurinn Þórhallur Ásmundsson (nr. 8 ) sem urðu í fyrsta og öðru sæti í flokki 50 ára og eldri.

Hér má sjá reglugerð SKÍ um Íslandsgöngur:  Reglugerð um Íslandsgöngur

Fossavatnsgangan sem er hluti af Íslandsgöngunni er einnig hluti af Landvættum en það er fjölþrautafélag þar sem taka þarf þátt í fjórum mótum, skíðagöngu, sundi, hlaupi og hjólareiðum. Mótin eru alltaf þau sömu og dreifast þau á milli landshluta.

Frekari upplýsingar er hægt að finna inná heimasíðu Landvættanna