Veðrið

Því verður ekki á móti mælt að veðrið skiptir gríðarlega miklu máli í skíðaferðum, að ekki sé talað um snjóalög. Á þessari síðu hefur því verið safnað saman nokkrum krækjum sem geta gefið upplýsingar um veður og snjó.

Þegar smellt er á krækjurnar opnast þær í nýjum glugga eða á nýjum flipa.

Veðrið í Bláfjöllum
Vísar á vef Veðurstofu Íslands og birtir nýjustu athuganir frá veðurstöðinni „Bláfjöll“. Stöðin er á einum ljósastaurnum á leið upp á heiði.

Veðursjá – úrkoma
Vísar á vef Veðurstofu Íslands og birtir nýjustu myndir frá veðursjá á Miðnesheiði.

Veðurspákort – yfirlitskort
Áður en rýnt er í „nákvæmar spár“ fyrir einstaka staði er hollt að skoða á yfirlitskortum hvernig búast má við að helstu veðurkerfi, hæðir, lægðir og skil, eru líkleg til að haga sér. Forsenda þess að nákvæmir reikningar á veðri á afmörkuðum svæðum (t.d. spákort Belgings) eða á tilteknum stöðum (svo sem myndrænar spár Veðurstofunnar eða yr.no) er að þau reiknilíkön, sem þar liggja að baki, hafi staðsett stóru veðurkerfin rétt.

Veðurspákort – afmarkað svæði:   Veðurstofa Íslands          Belgingur
Nokkuð er um veðurspákort reiknuð fyrir afmörkuð svæði og hér er vísað á tvö slík. Annars vegar spákort Veðurstofunnar þar sem spá frá Evrópsku veðurreiknimiðstöðinni (ECMWF) er lögð til grundvallar. Fyrir fyrstu þrjá sólarhringana er spákortið reiknað með líkani Veðurstofunnar (Harmonie) en fyrir lengri spár er spá ECMWF notuð. Spákort Belgings grundvallast á spáreikningi bandarísku veðurstofunnar (GFS). Ráðlegt er að skoða bæði líkönin og bera þau saman. Ef miklu munar á niðurstöðu líkananna er augljóst að annað hvort þeirra er á villigötum og þar með má álykta að minna en 50% líkur séu á að önnur hvor niðurstaðan sé „rétt“.

Veðurspá fyrir Bláfjöll
Vísar á vef norsku veðurstofunnar, yr.no,  og skilar spá fyrir stað í 615 m hæð á háhrygg Bláfjalla skammt norður af Eldborgargili. Þótt sá staður sé ekki á hefðbundnu göngusvæði er skekkja vegna staðsetningar væntanlega mun minni en sú skekkja sem almennt má búast við í veðurspám. Hægt er að sjá staðinn á Google Earth með því að smella á krækju neðst á spásíðunni. Athugið að „Bláfjöll“ er að finna á nokkrum stöðum á landinu. Ef beðið er um Bláfjöll á vef yr.no er því nauðsynlegt að ganga úr skugga um að um þau réttu sé að ræða (skoða kort eða leita að tölunni 3418149!).

Veðurtunglamyndir
Vísar á vef Veðurstofu Íslands og birtir nýjustu mynd frá veðurtungli.

Snjódýpt á landinu
Vísar á vef Veðurstofu Íslands og birtir kort þar sem mæld snjódýpt á veðurstöðvum er birt.

Vefmyndavélar á Hellisheiði, við Þrengslaveg og vegamót Bláfjallavegar á Sandskeiði
Vísar á vef Vegagerðarinnar og birtir myndir af vegum.

Ein athugasemd við “Veðrið

  1. Bakvísun: Vefurinn árið 2010 « Skíðagöngufélagið Ullur

Ummæli eru ekki leyfð.