Unglingameistaramót Íslands í Bláfjöllum um helgina

Um helgina, dagana 8. -10. apríl, fer fram Unglingameistaramót Íslands í Bláfjöllum. Um er að ræða Íslandsmeistaramót í unglingaflokki þar sem keppendur eru á aldrinum 12-15 ára. Jafnframt er mótið liður í Bikarkeppni SKÍ í sömu aldursflokkum. Krýndir eru unglingameistarar í alpagreinum og göngu. Það er Skíðadeild Breiðabliks sem sér um að halda mótið í samvinnu við Ull sem sér um keppnishald í göngu.

Dagskrá fyrir gönguna er eftirfarandi (ath. búið er að seinka kökuhlaðborðinu og verðlaunaafhendingu á sunnudag til 19:30,  eftirfarandi dagskrá gildir frá og með 8. apríl):

Föstudagur 7. apríl:
18:00 Fararstjórafundir í Smáranum
20:00 Setning mótsins í Menntaskólanum í Kópavogi

Laugardagur 8. apríl:
13:00 12-13 ára 3,5 km Frjáls aðferð
13:30 14-15 ára 5 km Frjáls aðferð
Fararstjórafundur í Bláfjöllum að móti loknu
19:00 Sundlaugapartý – Salalaug í Kópavogi

Sunnudagur 9. apríl:
13:00 12-13 ára 3,5 km Hefðbundin aðferð
13:30 14-15 ára 5 km Hefðbundin aðferð
19:30 (18:00) Verðlaunaafhending og veitingar – Fagralundi, félagsheimili HK
Fararstjórafundur strax eftir verðlaunaafhendingu

Mánudagur 10. apríl
11:00 Ski cross allir flokkar
Verðlaunaafhending í Bláfjöllum við skála Ullar

Úrslit, myndir og aðra upplýsingar má svo finna á facebook síðu mótsins sem má finna með því að smella hér.

Úrslit úr sprettgöngu á Skíðamóti Íslands

Þá eru úrslit úr sprettgöngu kvöldsins ljós og þau má finna hér.

Í kvöld eignaðist Ullur sinn annan Íslandsmeistara en það var engin önnur en Kristún Guðnadóttir, Ulli, sem sigraði í kvennaflokki.

Annars voru úrslit kvöldsins þessi:

Konur:

  1. Kristrún Guðnadóttir, Ulli
  2. Elsa Guðrún Jónsdóttir, SÓ
  3. Sólveig María Aspelund, SFÍ

Karlar:

  1. Sævar Birgisson, SÓ
  2. Dagur Benediktsson, SFÍ
  3. Sigurður Arnar Hannesson, SFÍ

Myndir frá Skíðamóti Íslands

Bendi á að nú eru komnar myndir frá göngukeppni landsmótsins í myndasafnið. Mæli sérstaklega með frábærum myndum Gísla Harðarsonar sem hann tók á laugardag og sunnudag. Aðrir, sem eiga myndir frá landsmótinu og vilja leyfa okkur að birta þær í myndasafninu eru vinsamlegast beðnir að hafa samband við vefstjóra. Til þess má nota tölvupóstkrækjuna neðst í hægri dálkinum hér á síðunni.

Skíðamóti Íslands lokið

Skíðamót Íslands 2011Göngugreinum í Skíðamóti Íslands er nú lokið. Síðasta grein göngukeppninnar, boðganga, fór fram í dag í aldeilis frábæru veðri og skíðafæri. Sex karlasveitir luku keppni í boðgöngunni en ekki reyndist unnt að ná saman kvennasveitum þannig að sú keppni teldist gild. Í stað þess var fitjað upp á keppni í tvíkeppni kvenna. Tvær sveitir tóku þátt í henni en hún fór þannig fram að tvær konur skipuðu hverja sveit og gengu tvo spretti hvor. Fyrsti og þriðji sprettur voru gengnir með hefðbundinni aðferð en annar og fjórði með frjálsri aðferð.
Úrslit í boðgöngunni og tvíkeppninni má finna hér: Boðganga

Sunnudagur 3. mars

Landsmóti framhaldið í dag og hefst lokakeppni skíðagöngunnar kl 11 og er fólk hvatt til að koma og fylgjast með. Stefnt er að því að hafa tilsögn fyrir almenning kl 13 og 14:30, skráning í skála Ullunga og kostar kr 1500, tilsögn um áburðarnotkun og meðferð gönguskíða verður hægt að fá í og við skálann á sama tíma. Minnt er á aðalfund Ulls er verður kl 20 á miðvikudagskvöld í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal.
Þóroddur F.

Landsmótið – dýrðardagur í Bláfjöllum

Þegar Bláfjöllin sýna sig frá þeirri hlið sem þau gerðu í dag er erfitt að hugsa sér að til sé betra og fallegra skíðagöngusvæði. Sólin skein, vindurinn rétt náði að breiða úr flöggum svo mætti sjá hvað á þeim stóð og nýr og hvítur snjór yfir öllu. Skíðafærið ævintýralega gott þannig að keppendur voru mun fljótari að ganga hringinn nú með hefðbundinni aðferð en með frjálsri aðferð daginn áður. Síðasti hluti hringsins er löng og brött brekka sem endar með beygju niður að markinu og keppendur komu brunandi á gríðarlegri ferð gegnum markið.

Keppnin varð jöfn og spennandi. Mest varð dramatíkin í kvennaflokki. Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, Eðalullungur til skamms tíma en keppir nú fyrir SFÍ, kom fyrst fram á brekkubrúnina, góðan spöl á undan Veroniku Lagun frá Akureyri. En Völu hlekktist á í síðustu beygjunni og missti ferðina, Veronika gerði hins vegar engin mistök og tókst að skjótast fram úr og kom einni sekúndu á undan í mark. Í þriðja sæti varð Ólafsfirðingurinn Svava Jónsdóttir sjö sekúndum á eftir.

Í flokki pilta 17-19 ára urðu úrslit eins og daginn áður. Stolt okkar Ullunga, Gunnar Birgisson, sigraði nokkuð örugglega, í öðru sæti varð Sindri Freyr Kristinsson frá Akureyri og í þriðja sæti Kristinn Þráinn Kristjánsson frá Akureyri.

Í karlaflokki sigraði Sævar Birgisson, SÓ, með glæsibrag. Andri Steindórsson, SKA, náði sér á strik eftir tvo erfiða daga og varð í öðru sæti og í þriðja sæti varð fyrrum Ullarkempan Daníel Jakobsson sem nú getur ekki verið þekktur fyrir annað en að keppa fyrir Ísafjörð.

Hér má svo finna nánari upplýsingar um úrslitin til þessa:

Sprettganga, 31. mars:  Sprettganga
Frjáls aðferð, 1. apríl: Frjáls aðferð
Hefðbundin aðferð, 2. apríl: Hefðbundin aðferð
Tvíkeppni (frjáls aðferð + hefðbundin): Tvíkeppni
Verðlaun félaga: Verðlaun

Nú er aðeins ólokið keppni í boðgöngu en hún fer fram á morgun kl. 11:00. Veðurútlit er gott og það er óhætt að hvetja alla til að koma og fylgjast með skemmtilegri keppni og reyna sig svo í frábærri göngubraut að henni lokinni.