Salernisgámur Bláfjöll

Nú er kominn upp salernisgámur við skíðagöngusvæðið í Bláfjöllum.  Gámurinn er staðsettur við endann á bílaplaninu þar sem gengið er að skíðagöngusvæðinu og Ullarskálanum.  Unnið er að rafmagnstengingu (til að koma á hita) sem klárast vonandi núna á næstu dögum.  Vinsamlegast muna að ganga vel um og loka hurð.

Nefndin

FIS/Bikarmót á Ísafirði 31. janúar – 2. febrúar 2020

Dagana 31. janúar – 2. febrúar næstkomandi fer fram á Ísafirði alþjóðlegt FIS-mót sem er jafnframt Bikarmót SKÍ.

Mótið er fyrir 13 ára og eldri. Athugið að keppendur 17 ára og eldri þurfa að hafa FIS-leyfi til að taka þátt í FIS-móti.

Skráningar fara fram í gegnum félögin svo þeir Ullungar sem hyggja á þátttöku þurfa að senda póst á ullarpostur@gmail.com í síðasta lagi þriðjudaginn 28. janúar 2020. 

Mótsboð með dagskrá og nánari upplýsingum má finna hér

Spor í Heiðmörk

Í gær var í fyrsta skipti troðið spor í Heiðmörk.  Snjóalög og veður hafa einfaldlega verið með þeim hætti að ekki hefur verið hægt að vinna í þessu fyrr.  Í haust var talsverð vinna sett í að grjóthreinsa sporið, stækka bílastæði og eins að útbúa þverun á brautina sem gerir þá styttri 4km hring.  Þá ættu að vera til staðar hæfilegar vegalengdir fyrir alla og óþarfi að fólk gangi fram og til baka í sporinu.  Við viljum hafa eina göngustefnu til að minnka slysahættu í brautinni, þá sérstaklega í brekkum.  Verið er að vinna í betri merkingum á brautinni sem vonandi koma fljótlega.

Sem fyrr er þetta samvinnuverkefni Skógræktarfélags Reykjavíkur og Ullar . Gott er fyrir skíðafólk að hafa í huga að utan vinnutíma Skógræktarinnar er þessi sporlagning unnin í sjálfboðavinnu og þrátt fyrir góðan vilja er ekki hægt að alltaf til staðar nýtt spor.  Sem fyrr munum við setja tilkynningar á Facebook um sporlagningu.

Nefndin

Smella á mynd til að sjá stærri

Takið daginn frá! Skíðapartí við skála Ullunga

ATH! Vegna veðurs hefur þessum atburði verið frestað um óákveðinn tíma. 

Við hjá Skíðaganga.is, Ulli og FÍ Landvættum ætlum að starta vetrinum framundan með spá partíi. Á sama tíma verður nýtt 50 manna tjald Skíðaganga.is vígt. Við byrjum partíið kl. 12:00 laugardaginn 4. janúar. Það verður opinn eldur, heitt kakó, vöfflur, tónlistarflutningur Kristínar Sesselju og Róberts Marshalls og hugsanlega munu einhverjir fleiri stíga á stokk.

Aðalatriðið er að hittast, dansa með eða án skíða og hafa gaman saman. Það verður sett upp þrautabraut fyrir krakkana, fólk frá Ulli verður til aðstoðar fyrir byrjendur sem þurfa einhverja aðstoð. Skíðaleigan verður opin og tónlistin mun duna fram eftir degi.

Fyrir áhugasama þá má finna Facebook event hér.

Félagið auglýsir eftir starfsmanni í hlutastarf til loka apríl 2020

Skíðagöngufélagið Ullur óskar eftir starfsmanni í hlutastarf til loka apríl 2020.

Verkefnin eru mörg og fjölbreytileg og felast meðal annars í sér að aðstoða við að innheimta æfingagjöld iðkenda félagsins ásamt félagsgjöldum og útsendingu félagsskírteina. Einnig mun starfsmaður halda utan um skráningar og aðrar upplýsingar fyrir námskeið á vegum félagsins.

Frekari upplýsingar er hægt að fá hjá stjórn Skíðagöngufélags Ullar,  stjornullar@gmail.com.

Bláfjallagangan – fréttir

Það er okkur sönn ánægja að kynna nýtt lógó Bláfjallagöngunnar en það er Árni Tryggvason sem á heiðurinn að hugmyndinni og merkinu.

Á lógóinu kemur nafn göngunnar greinilega fram og rammar inn mynd af skíðaköppum í forgrunni með strompana í bakgrunninum.

Við viljum einnig vekja athygli á því að Bláfjallagangan er nú komin með sína eigin síðu á facebook og hvetjum við þá lesendur sem eru  með facebook aðgang eindregið til að læka síðuna og deila.

Opið fyrir skráningar á námskeið á nýju ári

Nú höfum við opnað fyrir skráningar á verslun.ullur.is á eftirfarandi námskeið/hópa sem byrja í janúar 2020.

Byrjendanámskeið (6 skipti) byrjar 7. janúar
Kennslan fer fram á eftirfarandi dögum:
HÓPUR A
Þriðjudaginn 7.1 kl. 18:00
Miðvikudaginn 8.1 kl. 18:00
Laugardaginn 11.1 kl 10:30
Mánudaginn 13.1 kl. 18:00
Miðvikudaginn 15.1 kl. 18:00
Laugardaginn 18.1 kl. 10:30

HÓPUR B
Þriðjudaginn 7.1 kl. 19:30
Miðvikudaginn 8.1 kl. 19:30
Laugardaginn 11.1 kl 12:00
Mánudaginn 13.1 kl. 19:30
Miðvikudaginn 15.1 kl. 19:30
Laugardaginn 18.1 kl. 12:00

Framhaldsnámskeið (4 skipti) byrjar 14. janúar
Kennslan fer fram á eftirfarandi dögum:
Þriðjudagur 14.1 kl. 18:00
Laugardagur 18.1 kl. 13:30
Þriðjudagur 21.1 kl 18:00
Laugardagur 25.1 kl. 13:30

Íslandsgönguæfingar byrjar 14. janúar
Samæfingar fyrir almenning sem verða haldnar einu sinni í viku, á þriðjudögum kl. 19:30

Allar nánari upplýsingar á verslun.ullur.is en þar má einnig skrá sig á námskeiðin.

Í boði í vetur verða einnig skautanámskeið (2 skipti) og stök byrjendanámskeið (1 skipti) en þau verða auglýst seinna á hér á heimasíðu félagsins og á facebook.

Félagsaðild í Ulli er skilyrt fyrir æfingar og námskeið sem eru fleiri en 1 skipti. Hér má skrá sig í félagið.