Sportvalsgangan haldin í fyrsta sinn

Það var góð stemning í Bláfjöllum á laugardaginn þegar fyrsta Sportvalsgangan fór fram. Ekki skemmdi fyrir að veðrið var einfaldlega uppá 10, brakandi sól og stafa logn!

Til að breyta út af vananum var lögð þrautabraut sem yngstu iðkendurnir fóru einu sinni en þrautabrautin var svo tvinnuð saman við lengri og meira krefjandi braut fyrir eldri krakkana. Þannig fengu allir braut við hæfi og fína æfingu.

Verðlaunin voru ekki af verri endanum, páskaegg og veglegir vinningar frá Sportval. Þegar í mark var komið fengu keppendur páskaegg með númeri límdu á. Númerið gaf svo til kynna hvaða vinning á verðlaunaborðinu keppandinn fékk að launum. Skemmtilegt fyrirkomulag!

Að lokum voru pylsur grillaðar ofan í keppendur og sólarinnar notið í frábærum félagsskap.

Það er verslunin Sportval sem sá um og hélt mótið. Sportval er á sínu öðru starfsári og hefur séð Reykvíkingum fyrir Madshus skíðum, Craft fatnaði, Rode skíðaáburði og  Bliz skíðagleraugum. Frábærar vörur og góð þjónusta.

Skíðagöngufélagið Ullur þakkar Sportval fyrir frábært framtak!

Hjólaskíðanámskeið fyrir börn og unglinga

skid_Kristrun-696x464

Kristún (nr. 1) í keppi á Skíðamóti Íslands 2019, ljósmynd Hólmfríður Svavarsdóttir

Líkt og síðasta sumar stendur Kristrún Guðnadóttir fyrir hjólaskíðanámskeiði fyrir börn og unglinga. Kristrúnu þarf ekki að kynna fyrir Ullungum. Hún hefur undanfarinn vetur staðið sig vel í keppnum um allan heim og ber þar helst að nefna þátttöku hennar á heimsmeistaramótinu á liðnum vetri.

Námskeiðið verður haldið dagana 24. júní til 27. júní og er fyrir krakka á aldrinum 7-16 ára. Æfingar fara fram við Víkingsheimilið í Fossvogi.

Námskeiðið er tilvalið fyrir krakka sem vilja læra betur á hjólaskíðin, hlaupa, hoppa og með því byggja upp færni, þol, styrk og snerpu fyrir næsta vetur. Það er ennig er hægt að vera á línuskautum fyrir þá sem ekki eiga hjólaskíði. Dagskrá er sem hér segir:

Mánudagur 24. júni

Kl. 10.00 Æfing 1, hjólaskíði – Nokkrir hringi á skíðum og leikir

Kl. 11.30 – 12.00 Hádegishlé

Kl. 12.00 – 14.00 Æfing 2, hlaup með hoppum og sprettum

Þriðjudagur 25. júní

Kl 10.00 Æfing 1, hjólaskíði – Leikir og tækniæfingar

Kl. 11.30 -12.00 Hádegishlé

Kl. 12.00 -14.00 Æfing 2, hjólaskíði – Braut með hindrunum og sprettir

Miðvikudagur 26. júní

Kl.10.00-12.00 Æfing 1, hjólaskíði – Tækni og ganga stærri hring

12.00 Sund eftir æfingu

Fimmtudagur 27. júní

11.00 Fjallganga með stafi

Verð: 15. 000 kr, systkini 20.000 (samtals)

Skráningar og fyrirspurnir skal senda á kristrungud@gmail.com

 

 

 

Að loknum aðalfundi – Hugrún hættir

Aðalfundur Skíðagöngufélagsins Ulls var haldinn í húsakynnum ÍSÍ í Laugardal miðvikudaginn 15. maí 2019.

Mæting á aðalfundinn að þessu sinni var óvenju góð og til marks um að félagið er að stækka, áhuginn að aukast og starfið að eflast, eins og skýrsla stjórnar ber vitni um.

Ánægjulegt var að sjá að framkvæmdastjóri skíðasvæðanna og forstöðumaður Bláfjalla voru viðstaddir fundinn en nokkur umræða fór fram um framtíð Bláfjalla, sporlagningu og annað sem viðkemur aðstöðu í Bláfjöllum.

Nokkrar breytingar urðu á stjórn félagsins. Þar ber fyrst að nefna að Hugrún Hannesdóttir, sem hefur verið formaður undanfarin 2 ár og í stjórn frá árinu 2011, lætur af formennsku. Það er mikil eftirsjá í Hugrúnu enda hefur hún stýrt félaginu af miklum myndarskap. Kunnum við henni bestu þakkir fyrir frábært samstarf undanfarin ár.

Nýr formaður, Ingólfur Magnússon frá Sigufirði, hefur tekið við af Hugrúnu. Ingólfur hefur verið duglegur í innra starfi Ulls undanfarin ár og aðstoðað reglulega við mótahald, námskeið og önnur tilfallandi verkefni.

Aðrar breytingar á stjórn eru þær að Axel Pétur Ásgeirsson og Stefán Pálsson hætta í stjórn og inn koma Baldur Helgi Ingavarsson og Halla Haraldsdóttir í þeirra stað.

IMG_0366

Hugrúnu var þakkað fyrir vel unnin störf með glaðningi frá félaginu

IMG_0381

Ný stjórn, frá vinstri: Málfríður, Magnús, Ari, Ingólfur formaður, Ólafur, Baldur og Halla

IMG_0386

Fráfarandi formaður, Hugrún Hannesdóttir og nýr formaður, Ingólfur Magnússon

Andrésar Andarleikarnir 2019

Dagana 24.-27. apríl fóru Andrésar andarleikarnir fram í 44. skiptið á Akureyri. Að þessu sinni sendi Ullur 20 keppendur á aldrinum 5-15 ára auk þeirra Sigrúnar og Endre þjálfara. Aldrei hefur jafn stór hópur farið frá Ulli á Andrés eins og í ár. Sannarlega gleðilegt og sýnir að barna- og unglingastarfið er hægt og rólega að byggjast upp.

Leikarnir voru frábæri í alla staði eins og venjulega þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Snjólítið var í Hlíðarfjalli við upphaf leikanna og minkaði hann hratt í blíðskaparveðri sem einkendi fyrsta daginn sérstaklega og dagana á eftir. Skíðafélag Akureyrar vann frábært starf við að halda brautum í horfi og gera upplifuna krakkanna sem ánægjulegasta.

Árangur krakkanna var frábær í alla staði og voru þau félaginu til sóma innan sem utanbrautar. Úrslit má nálgast hér. Upp úr krafsinu hafði Ullur nokkur gull, silfur og brons en umfram allt sæla og ánægða krakka.

Skíðagöngufélagið Ullur þakkar Skíðafélagi Akureyrar fyrir frábæra Andrésar andarleika.

This slideshow requires JavaScript.

Bikarmeistarar 2019 í unglingaflokkum – Ullur á palli

Um nýliðna helgi fór fram Unlingameistarmót Íslands í skíðaíþróttum. Á mótinu átti Skíðagöngufélagið Ullur tvo keppendur, þær Sigríði Dóru Guðmundsdóttir og Evu Rakel Óskarsdóttir sem kepptu í 13-14 ára flokki og 15-16 ára flokki.

Mótið tóks vel fyrir utan smá erfiðleika vegna veðurs á fyrsta degi en þá var allri keppni aflýst. Gönguhluta mótsins var svo kláraður í Kjarnaskógi, skíðagönguparadís Akureyringa, þeirra Heiðmörk.

Að loknu móti voru bikarmeistarar í unglingaflokkum kringdir. Í bikarkeppninni safna keppendur stigum á bikarmótum sem haldin eru reglulega yfir veturinn. Skemmst er frá því að segja að stúlkurnar í Ulli komu heim með silfur og brons í bikarkeppninni, Sigríður Dóra með brons og Eva Rakel með silfur. Frábær árangur og bjart framundan hjá sístækkandi barna- og unglingahóp!

Hér má nálgast stutt myndband frá keppni á laugardaginn.

Skíðagöngufélagið Ullur þakkar SKA fyrir flott mót!

ganga-13-14-st

Sigríður Dóra Guðmundsdóttir (lengst til hægri) á verðlaunapalli á UMÍ 2019. Mynd: SKÍ

Andrésar andar leikarnir 2019 – skráning

Þá styttist í hápunkt tímabilsis fyrir okkar yngstu iðkenda, sjálfa Andrésar andar leikana á Akureyri.

Leikarnir fara fram dagana 24. til 27. apríl 2019, hér með er opnað fyrir skráningu á leikana! Athugið að skráningar þurfa að berast fyrir 15. mars.

Skíðagöngufélagið Ullur hvetur alla krakka sem tekið hafa þátt í æfingum í vetur til að skrá sig og vera með!

IMG_6964

Kristrún stendur í ströngu – Austurríki til Kína

sprettur.jpg

Kristrún kemur í mark í sprettgöngu. Mynd: SKÍ

Kristrún Guðnadóttir lauk fyrir skemmstu þátttöku á heimsmeistaramótinu í norrænum greinum í Seefeld í Austurríki.

Kristrún keppti þar í 5 km undankeppni og náði þar frábærum árangri og endaði í 7. sæti, 1:43 mín á eftir fyrstu konu. Sá árangur dugði til að tryggja sig áfram í allar aðalkeppnir mótsins í lengri vegalengdum.

Auk þess að keppa í undankeppninni kepti Kristrún í sprettgöngu með frjálsri aðferð og 10 km göngu með hefðbundinni aðferð.

Í sprettgöngunni náði Kristrún frábærum árangir og endaði í 65. sæti af 110 keppendum, rétt um 18 sek á eftir besta tíma í undanrásum. Sá árangur dugði þó ekki til að komast áfram í úrslitakeppnina en 32 keppendur komast áfram í úrslit auk 6 bestu tímanna þar á eftir. Það er því ljóst að Kristrún var rétt um 10 – 12 sek frá því að komast áfram í úrslit og framtíðin er björt hjá þessari frábæru skíðakonu.

Kristrún lauk svo keppni í 10 km skíðagöngu með hefðbundinni aðferð þar sem hún endaði í 73. sæti.

Frá Austurríki flaug svo Kristrún beint til Kína þar sem hún í dag tekur þátt í sprettgöngu í Bejing. Það er skemmst frá því að segja að hún endaði 34. í undanrásum af 70 keppendum, rétt um 5 sek frá því að komast áfram í úrslit. Samtals mun Kristún keppa í þremur sprettgöngum í Kína.

Formið hjá Kristrúnu er greinilega stígandi í aðdraganda Skíðalandsmóts Íslands sem fram fer á Ísafirði dagana 4. – 7. apríl.

 

Sögulegur árangur hjá Snorra á heimsmeistaramótinu

einarsson03032019fm12013-

Snorri Einarsson gerir sig kláran fyrir 50 km göngu á HM. Mynd: Nordic Focus

Ullungurinn Snorri Einarsson lauk keppni á heimsmeistaramótinu í norrænum greinum í gær með þátttöku í 50 km skíðagöngu með frjálsri aðferð. Með startnúmer 52 í 65 manna hóp var Snorri fyrir gönguna 52. besti skíðamaðurinn á ráslínu sé tekið mið af FIS stigum.

Óhætt er að segja að Snorri hafi útfært gönguna taktískt hárrétt og endað mótið með glæsibrag. Lengst af hélt Snorri sig aftarlega í hópi keppanda og sparaði krafta fyrir lokasprettinn. Við 10 km til 30 km millitíma var Snorri á bilinu 35-40 sæti. Það dró hinsvegar til tíðinda við 41,5 km markið þegar Snorri mælist með 16. besta millitíman og einungis 8,5 km eftir í mark.

Norðmaðurinn Hans Crister Holund hafði á þessum tímapunkti tekið af skarið og náð afgerandi forustu sem þó minnkaði þegar Rússinn Alexander Bolshunov gerði heiðarlega atlögu að fyrsta sætinu. Svo fór að Hans Crister Holund vann og Alexander Bolshunov varð annar.

Þeir sem á eftir komu, þar á meðal Snorri, gengu saman nánast alla leið í mark og keppnin um 3. sætið gríðarlega mikil. Það fór þó svo að Norðamaðurinn Sjur Røthe hrepti 3. sætið einungis 18 sekúndum á undan Snorra sem fylgdi bestu skíðagöngumönnum heimsins fast á hæla og kláraði eina af sínum bestu göngum á ferlinum í 18. sæti, 1:15 mín á eftir sigurvegaranum. Fyrir gönguna fékk Snorri 16 fis-stig sem er hans besti árangur Íslendings frá upphafi.

Það má segja að allt hafi gengið upp. Snorra gekk vel að fá í sig næringu og drykk á meðan á göngunni stóð en það er gríðarlega mikilvægt í göngu sem þessari. Við aðstæður eins og í göngunni, mikill hiti og sól, er hætta á að líkaminn ofþorni og þrek minnki til muna. Skíðin voru mjög góð og skíðaskipti gengu hratt og vel fyrir sig, en keppendum er frjálst að skipta um skíði með reglulegu millibili í göngunni. Snorri skipti einu sinni um skíði eins og flestir aðrir keppendur og hafði því góð skíði alla gönguna.

Það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir hvílíkt afrek þetta er. Í raun getum við sagt að Ullur og Ísland hafi í gær átt 18. besta skíðamann í heimi!

Skíðagöngufélagið Ullur óskar Snorra til hamingju með frábæran árangur!

feature30319vt036

Snorri, númer 52 ofarlega til vinstri, í harðri baráttu í 50 km göngu. Mynd: Nordic Focus

 

Býr sjálfboðaliði í þér?

Okkur langar að vekja athygli þín á hnapp hér á síðunni, SJÁLFBOÐALIÐAR. Með því að smella á hann getur þú fyllt út skráningarform og þar með komist í hóp öflugra sjálfboða Skíðagöngufélagsins Ulls. Verkefnin eru fjölmörg og skemmtileg og krefjast þess ekki að viðkomandi hafi endalausa reynslu af kakóbruggi, skíðasmurningu eða brautarvörslu. Vinnugleði og létt lund er eina skilyrðið.

Vertu með! Skráðu þig!

Góður dagur í Heiðmörk

Það var flott veður og frábær stemming í Heiðmörk þegar Ullungar gerðu þar innrás nýverið. Verkefni dagsins var að jafna út og gera nýlagða viðbót við gönguskíðabrautina klára fyrir veturinn og nýja troðaran sem þar verður. Vannst verkið vel þó enn sé nokkuð eftir. Með samstilltu átaki við brautarvinnu og góðum snjóalögum má búast við frábærum aðstæðum á komandi vetrum. Framtíðin er björt!

Ekki var stemmingin síðri um kvöldið þegar haustfagnaður Ullar var keyrður í gang. Hressandi veitingar og frábær stemming réð ríkjum langt fram á kvöld.

Ullur vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem lögðu sitt að mörkum. Takk!

20180929_151953

Myndir frá viðburðinum má finna á myndasíðu félagsins