FIS/Bikarmót á Ólafsfirði 2. – 4. mars 2018

Dagana 2. – 4. mars fer fram á Ólafsfirði alþjóðlegt FIS-mót sem er jafnframt Bikarmót SKÍ. Dagskrá og nánari upplýsingar má finna í mótsboði.

Mótið er fyrir 13 ára og eldri. Athugið að keppendur 17 ára og eldri þurfa að hafa FIS-leyfi til að taka þátt í FIS móti. Einnig, þá voru gerðar breytingar á aldri keppenda frá fyrra ári til samræmis við reglur FIS og nú miðast aldur keppenda tímabilið 2017/18 við aldur keppenda á árinu 2018.

Ullungar sem hafa hug á þátttöku, sendi póst á ullarpostur@gmail.com eða hafi sambandi við Málfríði s. 8946337  . Skráningar skulu berast í síðasta lagi í dag 27. febrúar kl 19:00.

Fjarðagangan á Ólafsfirði 24. febrúar

Þá fer að líða að næstu Íslandsgöngu en það er Fjarðagangan á Ólafsfirði. Í ár ætla Ólafsfirðingar að halda gönguna á nýjum stað og hanna brautina sérstaklega fyrir hinn almenna skíðagöngumann. Við hvetjum alla Ullunga að skella sér norður! Hægt er að taka þátt í 20 km, 10 km og 5 km og svo er auðvitað krílaflokkur sem fer styttri vegalengd. Það er eitthvað fyrir alla svo það er um að gera að drífa fjölskylduna norður, enda svo eftir gönguna á kökuhlaðborðinu, en það er jú engin Íslandsganga án kökuhlaðborðs! Nánari upplýsingar má finna í atburðinum fyrir gönguna facebook.

Skíðaspor í Reykjavík uppúr hádegi í dag 6. febrúar

Nú um hádegi verða lögð spor á 2-3 stöðum í borginni.

1. Við Norræna húsið, þar sem kynning verður á skíðagöngu milli 18 og 20 í kvöld, sjá viðburð hér á facebook. Tilvalið að taka nokkra 900 m. hringi þar fyrir kynningu.

Við Norrænahús/bílastæði HÍ. Smella á mynd fyrir stærri

2. Í Laugardal verður spor í brekkunni á milli Áskirkju og Þvottalauga. ca. 600m hringur.

Í Laugadal. Smella á mynd fyrir stærri

3. Klambratún, 1200 m. hringur.

Klambratún. Smella á mynd fyrir stærri.

Fögnum snjónum í höfuðborginni og skellum okkur á skíði!

Byrjendanámskeið laugardaginn 3. febrúar 2018

Laugardaginn 3. febrúar stendur Ullur fyrir námskeiðum í skíðagöngu, í Bláfjöllum, fyrir byrjendur og aðra sem vilja ná svolítið betri tökum á göngutækninni. Námskeiðin hefjast kl. 11:00 og kl. 13:00 og standa í rúma klukkustund. Smelltu hér til að skoða staðsetningu Ullarskálans í Bláfjöllum, þar sem æfingarnar fara fram.

Takmarkaður fjöldi þátttakenda er á hvort námskeið og verður leiðbeinandi á hverja 7-8. Námskeiðið kostar 3.000 kr., þeir sem þurfa að fá lánaðan búnað greiða 2.000 kr. að auki  en ekki má treysta því að fleiri en 18 geti fengið lánaðan búnað á hvoru námskeiði.

Skráning og greiðslur

Nauðsynlegt er að fólk skrái sig á námskeiðin og má gera það með því að fara inn á skráningar- og greiðslusíðu félagsins sem er verslun.ullur.is. Skráningar taka gildi þegar greiðsla skráningargjalds hefur farið fram.

Vakin er athygli á því að eins og á öðrum skíðasvæðum þarf að kaupa skíðakort sem gildir í brautirnar í Bláfjöllum en það er ekki innifalið í námskeiðum sem haldin eru á svæðinu.

Smelltu hér til að skoða gjaldskrá skíðasvæðisins í Bláfjöllum, en dagskort kostar 980 kr. Hægt er að greiða fyrir dagskort með korti í skála Ullar.

Um námskeið og val á skíðabúnaði

Í gær var fyrsti stóri námskeiðsdagurinn okkar í vetur. Yfir 70 manns mættu og lærðu grunnatriði íþróttarinnar. Það er hægt að fullyrða að allir fóru kátir úr fjallinu í gær og ótrúleg stemning var á svæðinu og við hjá Ulli vorum alsæl eftir daginn.
Við stefnum á fleiri svona daga sem allra fyrst og opnað verður fyrir skráningar á ný námskeið strax eftir helgi.

Á námskeiðin okkar mætir fólk ýmist með eigin búnað eða til að leigja af okkur. Stundum er búnaðurinn af misjöfnum gæðum og jafnvel rangt afgreiddur og því viljum við miðla hér smá fróðleik til að koma í veg fyrir að þið séuð að nota óhentugan skíðabúnað, því við vitum öll, að réttu græjurnar skipta máli, sama hvaða íþrótt á í hlut.

Því skuluð þið hafa nokkur atriðið í huga við val á búnaði:

  1.  Að skíðin séu rétt m.v. þyngd ykkar og hæð.
  2. Að stafirnir séu í réttri hæð fyrir ykkur.
  3. Skíðabúnaður sem legið hefur í geymslum árum saman, er að flestum líkindum ónothæfur. Líklegt er að sóli hafi umbreyst, skíðin misst spennu og plastefni í bindingum og skóm séu farin að molna og gefa sig. Skíði eru ekki bara skíði og munið að ný gönguskíði eru ekki svo dýr m.v. margar aðrar íþróttavörur,

Myndin hér fyrir neðan (smella á mynd til að sjá stærri) skýrir þetta ágætlega og hafið hana í huga þegar þið fáið ykkur skíðabúnað. Rétt valin skíði sem henta okkur, gera ánægjuna af íþróttinni svo miklu meiri.

 

Íslandsgangan: Hermannsgangan á Akureyri 13. janúar

Uppfært: Athugið að búið er að fresta göngunni vegna slæms veðurútlits. Ný dagsetning verður auglýst síðar.

Nú fer Íslandsgangan að hefja göngu sína en fyrsta gangan, Hermannsgangan,  fer fram á Akureyri 13. janúar. Finna má síðu göngunnunar á facebook en fyrir gönguna þann 13. janúar má einnig finna viðburð eða event á facebook.

Íslandsgangan er röð skíðagöngumóta sem efnt hefur verið til árlega síðan 1985. Íslandsgangan er almenningsganga en henni er ætlað að höfða til allra sem áhuga hafa á skíðaíþróttum, bæði þeim sem leitast eftir ánægjulegri og hollri útiveru og eins metnaðarfyllra keppnisfólki.

Í göngum Íslandsgöngunnar eru boðið uppá ýmsar vegalengdir og óhætt að segja að allir ættu að finna eitthvað fyrir sig.

FIS/Bikarmót á Ísafirði 19. – 21. janúar 2018

 Þá er komið að fyrsta FIS/Bikarmóti vetrarins en það fer fram á Ísafirði helgina 19. – 21. janúar. Drög að dagskrá og nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Skíðafélags Ísafjarðar.

Mótið er fyrir 15 ára og eldri. Athugið að keppendur 17 ára og eldri þurfa að hafa FIS-leyfi til að taka þátt í FIS móti. Einnig, þá voru gerðar breytingar á aldri keppenda frá fyrra ári til samræmis við reglur FIS og nú miðast aldur keppenda tímabilið 2017/18 við aldur keppenda á árinu 2018.

Ullungar sem hafa hug á þátttöku, sendi póst á ullarpostur@gmail.com. Skráningar skal senda fyrir þann 13. janúar.

Rétt er að benda á að samhliða bikarmótinu verður haldið barnamót. Nánari upplýsingar má finna á facebook.

Aðstæður eru mjög góðar fyrir vestan svo um að gera að drífa sig!