Íslenskir skíðagöngumenn á Ólympíuleikum

Guðmundur Hafsteinsson
21. febrúar 2014

Þegar Vetrarólympíuleikar standa sem hæst og margir skíðagöngumenn reyna að fylgjast sem best með norrænum greinum velta ýmsir því fyrir sér hvernig þátttöku Íslendinga í skíðagöngu hafi verið háttað á fyrri Ólympíuleikum.  Við höfum heyrt í fréttum af góðri frammistöðu Sævars Birgissonar á þungum og erfiðum snjó í sumarhitanum í Sochi og fjölmiðlar hafa frætt okkur á að íslenskir skíðagöngumenn hafi ekki keppt á Ólympíuleikum síðan 1994 þegar Daníel Jakobsson og Rögnvaldur Ingþórsson gerðu garðinn frægan í Lillehammer. Á vefsíðunni http://www.sports-reference.com/olympics/ má fletta upp úrslitum á Ólympíuleikum, bæði að sumri og vetri, sumarleikum allt aftur til ársins 1896 en vetrarleikum frá 1924. Samantektin hér fyrir neðan er fengin með því að fletta þessari síðu. Aftan við nafn hvers göngumanns sést hvaða göngur hann gekk og innan sviga sést í hvaða sæti göngumaðurinn varð og hve margir luku göngunni. Við sjáum einnig að nú keppa Íslendingar í 10. skipti í skíðagöngu á vetrarólympíuleikum. Tvisvar hefur keppandi verið aðeins einn, sex sinnum hafa keppendur verið tveir, einu sinni þrír en á fyrstu leikunum á listanum, í Osló 1952, voru keppendur sex og það er eina skiptið sem Íslendingar hafa keppt í boðgöngu. Þá gerðist það einnig, sem ekki hefur gerst aftur, að Íslendingur varð framan við miðjan hóp þeirra sem luku göngunni en Ísfirðingurinn Gunnar Pétursson varð í 32. sæti af 75 sem komu í mark í 18 km göngu. Garpurinn sá er enn að þótt kominn sé nokkuð á níræðisaldur, lauk t.d. sinni Fossavatnsgöngu vorið 2013. En nú að upptalningunni:

1952 – Oslo

Ebenezer Þórarinsson:  18 km (40/75) Gunnar Pétursson:  18 km (32/75) Ívar Stefánsson:  50 km (29/33) Jón Kristjánsson:  18 km (45/75), 50 km (30/33) Matthías Kristjánsson:  50 km (33/33) Oddur Pétursson:  18 km (55/75) Boðgöngusveit (Gunnar, Ebenezer, Jón, Ívar):  4×10 km (11/12)

1956 – Cortina d’Ampezzo

Jón Kristjánsson:  15 km (55/61), 30 km (39/51) Oddur Pétursson:  15 km (61/61), 30 km (48/51)

1964 – Innsbruck

Birgir Guðlaugsson:  15 km (67/69), 30 km (64/66) Þórhallur Sveinsson:  15 km (55/69), 30 km (61/66)

1976 – Innsbruck

Halldór Matthíasson:  15 km (47/78), 30 km (64/67), 50 km (42/44) Trausti Sveinsson:   15 km (69/78), 30 km (63/67)

1980 – Lake Placid

Haukur Sigurðsson:  15 km (47/61), 30 km (hætti) Ingólfur Jónsson:  15 km (54/61), 30 km (48/52) Þröstur Jóhannesson:  15 km (51/61), 30 km (hætti)

1984 – Sarajevo

Einar Ólafsson:  15 km (49/83), 30 km (49/69) Gottlieb Konráðsson:  15 km (55/83), 30 km (39/69)

1988 – Calgary

Einar Ólafsson:  30 km (65/87), 50 km (44/61)

1992 – Albertville

Haukur Eiríksson:  10 km (81/110), 30 km (hætti), 10/15 km eltiganga (80/99) Rögnvaldur Ingþórsson:  10 km (59/110), 30 km (69/82), 50 km (54/67), 10/15 km eltiganga (66/99) *)

1994 – Lillehammer

Daníel Jakobsson:   10 km (50/88), 30 km (38/71), 50 km (55/61), 10/15 km eltiganga (49/74) Rögnvaldur Ingþórsson:   10 km (78/88), 30 km (67/71), 50 km (60/61), 10/15 km eltiganga (69/74) *)

2014 – Sochi

Sævar Birgisson:  Sprettganga (72/85), 15 km (74/87)

*)  Eltigangan var forveri skiptigöngunnar sem nú tíðkast. 10 km gangan var gengin með hefðbundinni aðferð en síðar var ræst í 15 km göngu með frjálsri aðferð eftir þeim tímum sem keppendur höfðu náð í 10 km göngunni.

Ein athugasemd við “Íslenskir skíðagöngumenn á Ólympíuleikum

  1. Bakvísun: Íslenskir skíðagöngumenn á Ólympíuleikum | Skíðagöngufélagið Ullur

Ummæli eru ekki leyfð.