Í landi Emils

Halla Kjartansdóttir

Halla Kjartansdóttir sendi okkur þessa grein sem birtist í siglfirska fréttablaðinu Hellunni árið 2005 eftir ferð hennar með manni sínum Þórhalli Ásmundsyni til Mora árið 2005. Halla segir okkur frá upplifun sinni á 90km langri hliðarlínunni.

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að vera boðið að koma með nokkrum heiðurskörlum í Vasa-gönguna í Svíþjóð í vetur. Ég hafði mjög gaman af þessari ferð. Ég hélt dagbók þessa daga sem ég var í ferðinni og þar sem ritsjóri Hellunnar vissi af því, var hann að ympra á því annaðslagið að ég skrifaði nú smávegis um ferðina.

Sunnudaginn 27. febrúar 2005 fórum við af stað til Svíþjóðar, eldsnemma að morgni. Þegar við lentum á Arlanda-flugvelli var mjög kalt og snjóél. Við hittum Húsvíkingana, sem við ferðuðumst með, bræðurna Ásgeir og Helga Kristjánssyni og Sigurgeir Stefánsson. Þegar búið var að ná farangrinum þurftum við að ná í bílaleigubíl, sem var nú reyndar 9 manna rútukálfur. Mér leist nú ekki á það, því búið var að tala við mig um að ég keyrði bílinn frá Sälen á sunnudagsmorgninum.

En við lögðum svo af stað til Mora. Þegar við höfðum keyrt í ca. 2 tíma var mannskapurinn orðinn svangur og ákveðið var að stoppa við einhvern veitingastað á leiðinni. Við fundum veitingastað í einhverjum smábæ en þegar við ætluðum að panta okkur eitthvað, var ekki til neitt af því sem við báðum um. Við gengum þá yfir á Pizzastað sem var rétt við hliðina, og fengum okkur pizzur. Þegar búið var að borða héldum við aftur af stað til Mora. Mér fannst svo sniðugt þegar við keyrðum um sveitirnar, að það voru yfirleitt allstaðar rauðmáluð hús, og mér datt í hug að ég væri komin í myndina um Emil í Kattholti. Það voru svona litlir kofar í kring um húsin, og ég var að spá í hvort það væri til siðs að þegar krakkar í Svíþjóð væru óþekk, væru þau sett út í svona kofa, eins og gert var við Emil.

En þegar við vorum komin til Mora var klukkan farin að nálgast 18. Allir fengu sér næringu, enda hafði konan sem leigði okkur húsið, skilið eftir fullan ísskáp af allskonar góðgæti. Hún hafði meira að segja verið svo indæl að baka handa okkur köku og þegar búið var að borða fóru karlarnir að hafa skíðin til og drifu sig svo á skíði. Ég var bara heima, drakk te og snýtti mér, því ég hafði nælt mér í kvef fyrir ferðina. Það hefur sjálfsagt verið á tilboði einhversstaðar og sennilega verið ókeypis, og ég þá tekið við því. Svona er kvenfólkið, alltaf á útsölum.

Á mánudaginn, þegar allir voru vaknaðir og búnir að borða morgunverð sem rann saman við hádegisverð, var farið í búðarráp. Við vorum svo vel staðsett að við vorum aðeins nokkrum skrefum frá göngugötunni.

Já, ykkur finnst sennilega skrítið að það hafi verið farið í búðarráp þar sem svona margir karlmenn áttu í hlut Ég held ég hafi litið í hvern einasta glugga á leiðinni eftir götunni, eins og kvenna er siður, en það var ekki stoppað fyrr en komið var í Intersport. Þeir fóru allir með skíðin sín, til að láta steinslípa þau, og að skoða skíðavörur. Aldrei hef ég séð karlmenn staldra svona lengi við í nokkurri verslun. Það þurfti að skoða áburðinn, sköfurnar, korkana og burstana, eða hvað þetta heitir nú alltsaman, það gæti verið að þá vantaði eitthvað af þessu. Það voru skoðaðir sokkar, nærföt og straujárn fyrir áburðinn, og bara allt sem tengdist skíðum.

Svo var haldið áfram að ganga og nú var aftur gengið fram hjá öllum búðargluggunum í götunni og það var farið inn í Fliesberg sem er skíðavöruverslun. Þar var aftur skoðað allt það sama og hafði verið skoðað í Intersport. Og ekki var allt búið. Þegar farið var út úr Fliesberg, var farið í tjaldið, þar sem þeir sem ætluðu í Halv-vasa, sóttu númerin sín og skráðu sig. Þar snérist allt um skíði líka og þar inni var verslunin Stadium, með fatnað og annað til skíðaiðkunar. Þar var líka skoðað og mátað. Og ýmislegt var nú keypt á þessum 3 stöðum.

Aldrei aftur mun nokkur karlmaður sem hefur eitthvað svona hobby, geta sagt mér að konur séu skelfilegar í verslunum, því ég skemmti mér konunglega við að horfa á og fylgjast með þessum körlum versla. Þeir voru alveg eins og litlir strákar í dótabúð. En ég kvarta ekki, mér fannst þetta gaman og svo var nú eitthvað keypt handa mér líka.

Á þriðjudagsmorgninum fóru þeir Þórhallur, Sigurgeir og Ásgeir í Halv-vasa. Það var farið frá Oxberg og við Helgi keyrðum til Hökberg og fylgdumst með þeim fara þar í gegn. Það var 17° frost þennan dag og það var algert bíó að fylgjast með þeim skeggjuðu þegar þeir stoppuðu við Hökberg til að fá sér bláberjasúpuna, því þeir voru með grýlukerti í skegginu. Einn t.d. var með svo stórt grýlukerti að hann þurfti að setja það ofaní glasið svo hann gæti drukkið úr því. En við vorum svo við markið þegar þeir komu í mark og hvöttum þá áfram.

Á miðvikudaginn bættist einn enn í hópinn, Ingþór Bjarnason, og á fimmtudeginum annar, Jörundur Traustason. Þá var þetta orðinn sjö manna hópur.

Það var farið í bæinn alla dagana og skoðaðar skíðavörur og alltaf gengið fram hjá öllum búðargluggunum, nema með skíðavörunum. En á fimmtudeginum meðan þeir fóru á skíði, fór ég bara ein í bæinn og skoðaði allar þessar búðir sem við höfðum gengið fram hjá. Ekki verslaði ég nú mikið, enda ekki ódýrt í Svíþjóð, en bara gaman að rölta um.

Á föstudeginum var farið að startsvæðinu í Sälen um hádegið. Þar fóru allir á skíði. Það var frábært. Ég held ég geti bara farið að æfa skíði, ég á skíðaskó, skíðahanska, skíðavesti og Þórhallur lánar mér skíði og stafi, það eina sem mig vantar eru hæfileikarnir til að standa á skíðunum.

Laugardagurinn var letidagur. Allir slappa af og gera helst ekki neitt. Þeir fóru samt einhverjir með skíðin sín í bæinn til að láta “Valla”

Aðfararnótt sunnudagsins var vaknað kl. 3:30 því það tekur tímann sinn að taka sig til og komast á staðinn. Ég þorði ekki að keyra rútuna svo ég fór ekki með. Fór því bara að þrífa þegar ég var búin að sofa aðeins meira. Þegar það var búið, fór ég að athuga með herramennina. Þeir tíndust í markið einn af öðrum og ekki hægt að segja annað en að þeim hafi gengið vel. Flottir karlar þetta. Helgi og Ásgeir fóru að sækja bílinn og hinir dreyptu á bjór, meðan þeir slökuðu á, gengu frá skíðunum og reyndu að ganga frá sem mestu fyrir morgundaginn. Svo var farið á kínverskan veitingastað um kvöldið, til að halda upp á það að þeir hefðu komist óskaddaðir í mark.

Á mánudeginum var vaknað fyrir kl. 6 til að klára að ganga frá dótinu sem eftir var að ganga frá, öllu raðað í bílinn og lagt af stað til Stockholm milli 6:30 -7:00. Stoppað á einum stað á leiðinni til að borða, því einhverjir voru orðnir svangir og svo var bara haldið áfram, tékkað sig inn í flug og sest svo niður og borðað. Þegar við komum heim kl. 23:45, höfðum við verið á fótum frá kl. 4:45 að íslenskum tíma, þ.e.19 tíma. Ég tók eftir því þegar ég var að pikka þetta í tölvuna, að við höfum alltaf verið að borða, þar kemur skýringin á því hvers vegna mér fannst ég hafa þyngst þegar ég kom heim.

Ég komst samt að leyndarmáli í þessari ferð. Það missti einn það út úr sér hvers vegna þeir væru svona áfjáðir í að fara í Vasa-gönguna. Og vitið þið hvað það er? Það er nefnilega vegna þess að það eru alltaf einhverjir kvenmenn sem ganga líka, og þeir eru svo fallegir kvenmannsrassarnir sagði hann, að maður reynir alltaf að hanga á eftir þeim, og missa ekki sjónar af þeim.

Þessi ferð var frábær að því að mér fannst og vona ég að mér verði boðið að fara einhverntímann aftur með. Ég þakka þessum strákum sem ég fékk að vera samvistum við, kærlega fyrir skemmtilegheitin og vona að ég hafi ekki haft nein letjandi áhrif á þá. Ég reyndi að láta lítið fyrir mér fara, svo þeir gleymdu að það væri kvenmaður með í hópnum, og svei mér þá ef það hefur ekki virkað, því það voru ótrúlegustu hlutir sagðir og mikið hlegið, skrafað og skeggrætt.

Takk fyrir mig. Halla Kjartansdóttir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s