Barna- og unglingaæfingar

Veturinn 2020-2021 verða reglulegar æfingar fyrir börn og unglinga á vegum Ulls undir stjórn Sigrúnar Auðardóttur þjálfara. Æfingarnar eru fyrir 6 ára (2014) og eldri. Fyrirkomulag þeirra í haust verður með eftirfarandi hætti:

Æfingar barna- og unglinga verða tvisvar í viku þar til æfingarnar færast á snjó, kl. 18:00 á miðvikudögum og kl. 11:00 á laugardögum. Þegar snjórinn kemur verður að auki æft á sunnudögum kl. 11:00. Helgaræfingarnar færast þá í Bláfjöll. Eldri krakkar (fædd 2008 og eldri) eru einnig á styrktaræfingum inni í íþróttasal Selásskóla á fimmtudögum kl. 18.

Nýir iðkendur eru alltaf velkomnir og þeir sem hafa áhuga á að bætast í hópinn geta sent fyrirspurn á krakkaullur@gmail.com. Einnig má hringja í síma 860 1740 (Sigrún Melax)

Nokkrir punktar varðandi æfingar:

  • Mæta þarf tímanlega á æfingar.
  • Gott er að passa að börnin séu búin að borða.
  • Passa þarf að börnin séu búin að fara á salernið. Því miður er salernisaðstaðan ekki mjög glæsileg á skíðagöngusvæðinu (það eru kamrar hjá bílastæðinu).
  • Börnin þurfa að vera klædd eftir veðri:
    • Góð innanundirföt, skíðabuxur eða utanyfirbuxur og jakki sem heftir ekki hreyfingar. Buff fyrir háls og andlit, góðir vettlingar og húfa. Hafið samt í huga að manni hitnar fljótt við skíðagöngu þannig að gott er að klæða sig samt ekki of mikið. Athugið samt að oft er töluvert kaldara uppi í Bláfjöllum en í bænum þannig að takið mið af veðrinu uppi í Bláfjöllum.
  • Gott er að vera með úlpu eða önnur aukaföt til að fara í þegar æfingin er búin.
  • Gott er að vera með eitthvað smá nesti til að borða í skálanum eftir æfingu (þegar það verður leyfilegt vegna covid), og/eða í bílnum á leiðinni heim.

Upplýsingar fyrir þá sem koma nýir inn í starfið.

Þegar byrjendur á skíðum koma nýir inn á æfingar þá getur tekið nokkur skipti að ná upp færni til að geta fylgt hópnum. Við erum ekki með nógu marga þjálfara til að geta fylgt byrjendum sem koma inn og eru að stíga sín fyrstu skref á skíði. Því er stundum nauðsynlegt að einhver sé barninu innan handar á fyrstu æfingunum, þannig að það upplifi sig ekki eitt og yfirgefið ef það missir af hópnum og að það fái aðstoð við að standa upp ef það dettur og þess háttar. Hægt er að fylgjast bara með úr hæfilegri fjarlægð og vera tilbúin/n að skjótast og hjálpa barninu ef þess gerist þörf.

Barnastarfið eins og annað starf í Ulli er borið uppi af sjálfboðaliðastarfi. Fyrir utan þjálfara sem sjá um þjálfun á æfingum þá sjá foreldrar um allt barnastarfið og er því mikilvægt að allir taki þátt svo hægt sé að skipta með okkur verkum. Þegar farið er í keppnisferðir sjá foreldrar um að allt sem við kemur sínu barni. Að komast á staðinn, gistingu og að undirbúa skíðin. Það er um að gera fyrir foreldra sem eru nýir í skíðagöngu að leita til reyndari aðila í hópnum til að fá kennslu og ráð í umhirðu skíðanna og öðru.

Þar sem staðsetning æfinga er breytileg þá er tilkynnt um staðsetningu fyrir hverja æfingu á facebook síðu hópsins.