Hjólaskíðamót – úrslit

Hið árlega hjólaskíðamót Ullar fór fram á Völlunum í Hafnarfirði laugardaginn 9. október. Þrátt fyrir rigningu af og til og bleytu á brautinni þá var góð og skemmtileg stemning og allt gekk vel fyrir sig. Farinn var 2km hringur og fóru keppendur 17 ára og eldri 5 hringi eða 10km. Fyrst allra í mark var Kristrún Guðnadóttir á tímanum 29:04. Fyrstur karla í mark varð Árni Georgsson á tímanum 30:45. Í flokki unglinga 13-16 ára sem að fóru 3 hringi eða 6km, urðu sigurvegarar María Kristín Ólafsdóttir og Hjalti Böðvarsson. Í flokki 10-12 ára sem að fóru 4km varð sigurvegari Áslaug Yngvadóttir.

Öll úrslit má nálgast hér.

Að móti loknu voru dregin út glæsileg útdráttarverðlaun frá Everest, Fjallakofanum, GG sport og Sportval. Þökkum þessum fyrirtækjum kærlega fyrir stuðninginn og þátttökuna!

Hjólaskíðin eru frábær leið til æfinga og undirbúnings fyrir veturinn og fleiri og fleiri sem að eru byrjaðir að stunda æfingar á hjólaskíðum. Er það von okkar að með þessari fjölgun verði fleiri og fleiri sem að vilja taka þátt í hjólaskíðamótum og stefnum við að því að halda enn stærra og glæsilegra mót á næsta ári.

Hjólaskíðamót – upplýsingar

Eins og áður hefur verið auglýst þá fer hið árlega hjólaskíðamót Ullar fram laugardaginn 9. október kl. 10.00. Mótið fer fram á sama stað og fyrir 2 árum síðan, eða á Völlunum í Hafnarfirði. Mark og start er á gatnamótum Dofrahellu og Straumhellu.

Keppt verður í eftirfarandi flokkum og vegalengdum:

Ræsing kl. 10.00

9 ára og yngri (fædd 2012 og yngri): 2 (fara einn hring sem að er 2km)

10-12 ára (fædd 2009-2011): 4 km (2 x 2km hringur)

12 ára og yngri mega vera á hvort sem er línuskautum eða hjólaskíðum og er frjáls aðferð leyfileg

Ræsing kl 10.30

13-16 ára stúlkur og piltar (fædd 2005-2008) – 6 km ( 3 x 2km hringur) Hefðbundin aðferð.

17 ára og eldri konur og karlar (fædd 2004 og eldri) –  10km ( 5 x 2km hringur) Hefðbundin aðferð.

Ath, 13+, mega einungis keppa á hjólaskíðum með stoppara (ekki á skautahjólaskíðum).

Hjálmaskylda er í keppninni.

Þátttökugjald:

16 ára og yngri: frítt

17 ára og eldri: 1000kr

Hægt er að skrá sig á verslun.ullur.is, en einnig má skrá sig á staðnum.

Brautin:

Hringurinn verður 2km langur. Start er á gatnamótum Dofrahellu, Straumhellu og Borgarhellu. Farið er upp Dofrahellu og svo fljótlega beygt til vinstri og svo eftir skamma stund til hægri og farið upp Búðarhellu. Þegar komið er að gatnamótum Búðarhellu og Borgarhellu er beygt til hægri og Borgarhellu fylgt að gatnamótum Borgarhellu og Dofrahellu, þar beygt til hægri niður Dofrahellu. Fljótlega er svo aftur beygt til hægri og farið inn á sama hring og áður, farið upp Búðarhellu og að gatnamótum Búðarhellu og Borgarhellu í annað skiptið, en í þetta skiptið er beygt til vinstri og Borgarhellu fylgt alla leið þar til komið er að gatnamótum Dofrahellu, Straumhellu og Borgarhellu þar sem markið er. Athugið að fljótlega eftir að lagt er af stað upp Dofrahellu þarf að fara yfir lítinn bút með möl (um það bil 2metra bútur) og þar þarf að fara varlega.

Mynd af hringnum er hér að neðan:

Nánari upplýsingar veitir Málfríður í síma 894 6337.

Hjólaskíðamót Sportval

Eftir að hafa reynt nokkrum sinnum að halda Sportvalsmótið síðasta vetur tókst það loks. Í þetta skipti var það haldið á hjólaskíðum, eðli málsins samkvæmt!

Sportvalsmótið er haldið fyrir yngstu iðkendur okkar eða frá 9 ára til 16 og fer venjulega fram á vorinn. En erfitt tíðarfar og loks snjóleysi komu í veg fyrir að mótið gæti farið fram við venjulegar skíða aðstæður. Því frestaðist móti og breyttist á endanum í hjólakskíðamót. Líklega fyrsta hjólaskíðamótið í Reykjavík sem bara er ætlað fyrir börn og unglinga.

Mótið fór fram í Kópavogi á svæðinu í Kringum Lindakirkju og Salaskóla. Frábærar aðstæður fyrir hjólaskíði og hægt að leggja nokkuð krefjandi braut. Þó að brautin vær krefjandi stóðu krakkarnir, sem mörg hver eru að stíga sín fyrstu skrefa á hjólaskíðum, mjög vel og allir komu heilir í mark.

Krakkar 12 ára og eldri gengu hefðbundið um það bil 6 km og þau yngir, 9-11 ára, gengu 3 km frjálst. Þáttakendur voru 12, 6 í hvorum aldursflokki.

Fyrir mót var tilkynnt um leynigest sem kæmi á mótið og yrði iðkendunum til halds og traust. Leynigesturinn reyndist vera okkar eigin Kristrún Guðnadóttir, landsliðskona úr Ulli! Mikil hvatning fyrir krakkana að fá að sjá hana og hafa með í kringum mótið. Takk fyrir komuna Kristrún 😊

Eins og nafið gefur til kynna kemur Sportval að mótinu og leggur til veglega vinninga, páskaegg og útdráttar verðlaun. Þó að langt sé til páska (eða langt síðan það voru páskar) var hefðinni viðhaldið og páskeeggjum, ásamt vinningum, útdeilt.

Skíðagöngufélagið Ullur þakkar Sportval fyrir stuðninginn og hvetur fólk til að kíkja við hjá Óskari og Begga í Sportval, Selásbraut 98.

Hjólaskíðamót Ullar 9. október

TAKIÐ DAGINN FRÁ!!

Hið árlega hjólaskíðamót Ullar fer fram laugardaginn 9. október næstkomandi kl 10.00 (ATH breytt tímasetning, var áður auglýst kl 11).

Við gerum ráð fyrir að vera á sama stað og fyrir 2 árum, á Völlunum í Hafnarfirði, en nánari upplýsingar um braut, staðsetningu, flokka og skráningu koma í næstu viku.

Ath, fullorðnir, 17+, mega einungis keppa á hjólaskíðum með stoppara (ekki á skautahjólaskíðum). Hjálmaskylda er í keppninni.

Hlökkum til að sjá sem allra flesta!