Gjafabréf

Áttu í erfiðleikum með að kaupa síðustu gjafirnar? Langar þig að bæta einhverju skemmtilegu við í pakkana?

Eins og í fyrra ætlar Skíðagöngufélagið Ullur að bjóða upp á tvenns konar gjafabréf fyrir jólin.

Fyrri kosturinn er eins skiptis námskeið, þar sem farið er í grundvallaratriði skíðagöngunnar. Í þeim pakka gerum við ráð fyrir að fólk leigi líka búnaðinn.
Hinn kosturinn er sex skipta námskeiðið okkar, en til að fólk komist á þau námskeið, þá þarf þátttakandi að vera skráður í félagið. Því er það kort tilvalin gjöf til einhvers sem hefur tekið stutta námskeiðið, skráð sig í félagið en þarf að læra meira.

Við viljum biðja þá sem að kaupa gjafabréfin að gæta þess vel, að búið sé að greiða fyrir þau inn á reikning félagsins og taka fram í skýringum með greiðslu að um gjafabréf sé að ræða og senda kvittun á ullarpostur@gmail.com. Einnig þarf að skrá nafn kaupanda og dagsetningu kaupa á skjalið. Með því er tryggt að engar neyðarlegar uppákomur eigi sér stað þegar sá sem fékk gjafabréfið mætir á námskeið. Því treystum við því að allir sem kaupa gjafabréfin ganga vel og rétt frá öllum formsatriðum.

Þegar þið hafið greitt, þá hlaðið þið skjalinu niður af síðunni okkar hér fyrir neðan, prentið út og skrifið á það nafn og aðrar upplýsingar.

Greiðið fyrir gjafabréfin inn á reikning okkar:
Skíðagöngufélagið Ullur
kt.: 600707-0780
Reikningsnr.: 0117-26-6770
Skýring: Gjafabréf

Hér má hlaða niður gjafabréfunum (hægri smella og velja „save link“ eða vista):

Gjafabréf fyrir stakt námskeið með búnaði.

Gjafabréf fyrir 6 skipta námskeið.

Aðventu- og skíðakveðja.

Kæru félagar í Ulli

Nú er undirbúningur fyrir skíðaveturinn 2018-2019 kominn á fullt. Það er búið að leggja inn pöntun á talsverðu magni af snjó, verið er að undirbúa skíðagöngusvæðið í Bláfjöllum fyrir veturinn, búið er að skipuleggja fyrstu námskeiðin, barna og unglingaæfingarnar eru komnar á fullt, búið er að ákveða dagsetningar á Íslandsgöngunum og þar með talið Bláfjallgöngunni, skálinn er tilbúinn að taka við fólki o.s.frv.

Nokkrir einstaklingar hafa skráð sig sem sjálfboðaliða fyrir félagið og kunnum við þeim miklar þakkir fyrir. Alltaf má þó bæta við og hvetjum við alla sem geta til að skrá sig en það er hægt að gera hér: https://docs.google.com/forms/ en einnig er hægt að smella á hnapp hér til hliðar. Um er að ræða margvísleg verkefni sem tengjast þó flest mótum og öðrum viðburðum í Bláfjöllum. Margar hendur vinna létt verk.

Í vetur ætla Ullur, Reykjavíkurborg og Skógræktarfélag Reykjavíkur í samstarf um að gera nýja og flotta skíðagöngubraut í Heiðmörk. Búið er að grisja skóg og kaupa sleða og búnað til þess gera brautina sem besta.

Til að halda úti öflugu starfi þarf félagið á framlagi allra að halda og hvetjum við því félaga í Ulli til að greiða greiðsluseðil sem hefur borist í heimabankann sem fyrst. Fjölmargir hafa nú þegar greitt félagsgjöldin og viljum við þakka kærlega fyrir það.

Ekki verða gefin út félagsskírteini að þessu sinni en til að fá afslátt í völdum verslunum og á gönguskíða-árskorti á skíðasvæði Bláfjalla og Skálafells þarf að sýna kvittun fyrir greiðslu félagsgjalda.

Vonandi hafið þið það gott um hátíðarnar.

Aðventu- og skíðakveðja,

Stjórn Ullar