Nýr þjálfari barna og unglinga

26239458_10155939337772398_4686851773222902835_n

Endre Nyberg Håland

Barna- og unglingastarfið er óðum að taka á sig mynd fyrir veturinn. Breytingar verða á komandi vetri þar sem Sigrún Anna Auðardóttir hættir störfum sem þjálfari eftir þriggja vetra farsælt starf. Það er mikil eftirsjá í Sigrúnu enda náði hún einstaklega vel til barnanna. Við í Skíðagöngufélaginu Ulli erum henni þakklát fyrir frábæra vetur og vonum að hún sjái sér fært að vinna áfram með okkur að uppbyggingu skíðgönguíþróttarinnar  á höfuðborgarsvæðinu.

Endre Nyberg Håland hefur verið ráðinn til að taka við þjálfarakeflinu. Endre er 25 ára gamall norðmaður frá Stavanger á vesturströnd Noregs. Endre stundaði nám við skíðamenntaskólann í Sirdal, þeim sama og Kristrún okkar Guðnadóttir stundaði nám við. Að námi loknu tók hann við starfi aðstoðarþjálfara við sama skóla ásamt því að æfa og keppa sjálfur til 23 ára aldurs.

Það var áhugi hans á Íslandi og löngun til að prófa eitthvað nýtt sem dróu hann hingað fyrir tveimur árum. Hann hóf þá nám við Flugakademíu Keilis í Keflavík þar sem hann hefur lokið námi en starfar nú sem flugkennari.

Endre hefur skíra sýn á þjálfun barna og unglinga, að læra í gegnum leik með það markmið að byggja góðan grunn fyrir framtíðina. Hann talar jafnframt um að fá með foreldra á sameiginlegar æfingar sem er skemmtileg nýbreytni hér á landi en nokkuð algengt í Noregi.

Fyrstu æfingar vetrarins eru áætlaðar helgina 15. og 16. september, nánar um það síðar.

Við í Skíðagöngufélaginu Ulli bjóðum Endre velkominn til starfa.

 

IMG_6964

Sigrún Anna, lengst til vinstri, með Ullarkrökkum á Andrésar Andar leikunum 2018