Hefur þú týnt einhverju?

Dálítill hópur Ullunga brá sér í Bláfjöll í kvöld og tók til hendinni í Ullarskálanum. Meðal afreka má nefna vorhreingerningu og tiltekt í skálanum og mjúkur rennslisáburður var borinn á öll skíði félagsins svo að þau verði í sem bestu ásigkomulagi þegar þau verða leigð út næsta vetur. Við tiltektina kom í ljós að talsvert hefur safnast af óskilamunum í vetur. Má þar nefna vettlinga, húfur sokka skó, trefil og skíðagleraugu. Þessa gripi má sjá á myndinni hér til hliðar. Þeir, sem sjá þarna eitthvað sem þeir töldu glatað, geta nú fengið það aftur, t.d. með því að senda tölvupóst til félagsins (krækja næstum neðst í dálkinum hér til hægri).

Eru skíðin tilbúin fyrir sumarið?

Það eru sennilega allir hættir að hugsa um skíðagöngu nú í sumarhitanum en ef það hefur ekki enn komist í verk að ganga frá skíðunum fyrir sumarið er ekki seinna vænna að huga að því. Á vönduðum nútímaskíðum er sólinn nefnilega þannig að hann getur ofþornað og skemmst ef hann er lengi áburðarlaus og óvarinn. Það er því mikilvægt að metta rennslisfletina með áburði áður en skíðin eru sett í geymslu, það skilar sér í betra rennsli næsta vetur.

Byrjum a að hreinsa burt allt gamalt klístur af festufletinum og reynum að bursta burt alla klístubletti sem kunna að hafa laumað sér á rennslisfletina. Bræðum svo mjúkan rennslisáburð (t.d. gulan RODE eða Swix CH10) á rennslisfletina og látum hann storkna þar, sköfum ekkert af fyrr en í haust! Eftir þetta líður skíðunum betur í sumarblíðunni.

Um Íslandsgönguna 2012

Nú er öllum mótum Íslandsgöngunnar 2012 lokið en henni lauk að vanda með glæsilegri Fossavatnsgöngu. Þótt brennandi áhugi skíagöngumanna á Íslandsgöngunni sé ekki alltaf augljós eru áreiðanlega ýmsir sem hefðu gaman af að velta fyrir sér úrslitunum. Ekkert hefur enn birst um þau á vefsíðu Íslandsgöngunnar, síðasta hreyfing þar er frá því í haust þegar mótaskráin var kynnt, og þess vegna hefur svolítil samantekt verið sett á þennan vef. Það skal tekið fram að sá, sem það gerir, hefur ekkert umboð til þess frá forsvarsmönnum Íslandsgöngunnar og engin ábyrgð er tekin á að öll stig séu rétt reiknuð. Leiðréttingar og ábendingar eru vel þegnar. En hér má sjá lokastöðuna:  Úrslit Íslandsgöngunnar 2012

Það er ýmislegt athyglisvert í þessum tölum. Sem dæmi má nefna að aðeins ein kona lauk þremur göngum sem er tilskilinn lágmarksfjöldi til að komast á verðlaunapall. Aðeins einn lauk fleiri en þremur göngum en sá lauk reyndar öllum fimm. Aðeins einn lauk þremur göngum án þess að komast á verðlaunapall. Þetta samrýmist ekki vel hugmyndum sumra um að almenningsgangan Íslandsgangan eigi að höfða til sem allra flestra og hvetja fólk til að taka þátt í keppni á gönguskíðum.

Það voru 76 sem fengu stig í enhverri göngu. Ef litið er á fjölda þeirra sem fengu stig í einstökum göngum sést að Strandagangan er óumdeilanlega Íslandsganga nr. 1, a.m.k. þennan veturinn. Það er athyglisvert að það eru lengstu göngurnar (Fossavatnsgangan – 50 km, Orkugangan – 35 km (átti að vera 60 km)) sem skila fæstum með stig. Það voru 21 sem fengu stig úr lengstu vegalengd Fossavatnsgöngunnar en ef 20 km gangan þar hefði verið látin gilda til stiga hefðu 55 komist á blað. Það má því velta því fyrir sér hvort hin stórglæsilega Fossavatnsganga, þar sem eitt helsta markmið með 50 km göngunni er að fá sem flesta og öflugasta erlenda kappa til landsins handa íslenskum göngumönnum að reyna sig við, kunni að vera vaxin upp úr hinum þrönga búningi Íslandsgöngunnar, almenningsgöngu sem á að hvetja sem allra flesta til að ganga á skíðum. Það skal þó skýrt tekið fram að hér er alls ekki verið að gagnrýna Fossavatnsgönguna, hún er stolt allra íslenskra skíðagöngumanna og allir vilja veg hennar sem mestan.

Hugsum málið, er Íslandsgangan eins og hún ætti að vera og ef ekki, hvernig ætti hún þá að vera?

Uppskeruhátíð í Bláfjöllum

Ullungar héldu uppskeruhátíð vetarins við Þóroddsstaði í Bláfjöllum sunnudaginn 6. maí og fögnuðu unnum afrekum. Hátíðarhöldin hófust með boðgöngu þar sem fjórar sveitir öttu kappi.

Íþróttaafrekum var ekki þar með lokið því þá tók við keppnin um Ullarásinn en þar skyldu keppendur ýta sér upp með stólalyftunni í Suðurgili og hlaut sá nafnbótina sem hæst komst. Leikar fóru svo að Óskar Jakobsson varð Ullarás eftir harða baráttu við Snorra Ingvarsson og Þórhall Ásmundsson.

Þá voru grillin þanin, Þóroddur og Óskar sýndu snilldartakta við eldamennskuna og aðrir viðstaddir létu ekki sitt eftir liggja við að gera veitingunum góð skil.

Hátíðinni lauk með góðri göngu, líklega um 16 km hring, um Bláfjallasvæðið undir leiðsögn Þórodds og Trausta Tómassonar. Lítið var orðið um troðin spor en það kom ekki að sök því færið var ákaflega gott, þéttur snjór þar sem sólskinið hafði mýkt efsta lagið. Það var því leikur einn að ganga ótroðnar slóðir, jafnvel á mjóstu skíðum.


Enn er nægur snjór í Bláfjöllum og það er ástæða til að hvetja alla til að nýta hann næstu vikurnar. Þetta er í rauninni besti tíminn til skíðagöngu um Bláfjöllin, ekki síst þegar veðrið leikur við fólk eins og það gerði þennan dýrðardag.

Fleiri myndir frá hátíðinni eru komnar í myndasafnið, smellið á myndina í hægri dálkinum.

Lokahátíð Ullunga í dag, 6. maí, kl.12:00

Lokahátíð Ullunga verður í Bláfjöllum í dag og þurfa allir að mæta fyrir kl 12:00 en þá verður ræst í leika dagsins en að þeim loknum verða grillaðar pylsur handa öllum.

Í fyrradag var lagt um 5 km spor sem áreiðalega hefur haldist nokkuð gott ef vélsleðamenn hafa ekki ekið meira um það en búið var að gera í gærmorgun. Nægur snjór er um alla heiði og auðvelt að fara 20-30 km hring utan spora.

Í morgun kl 08 var 4-5 °frost og því áreiðanlega mikið harðfenni en við vonumst til að sólin verði búin að mýkja það um hádegisbil.
Sjáumst á eftir
Þóroddur F.

Bláfjöll – spor

Það var lagt spor í Bláfjöllum í dag það ég best veit og mun það nýtast vel í góðviðrinu um helgina. Hætt er við nokkurri fínni ösku í snjónum, miðað við hvernig ástandið var 1. maí en hugsanlegt er að við ferð troðarans við sporlagninguna hafi óhreini snjórinn blandast hreinni snjó sem var undir.
Sjáumst í fjöllunum, ekki sýst í slúttinu á sunnudaginn.
Þóroddur F.

Vertíðarlok í Bláfjöllum

Sæl verið þið.
Við munum fagna vertíðarlokum í Bláfjöllum á sunnudaginn og hvetjum alla félagsmenn til að mæta. Ræst verður kl 12:00 í létta boðgöngu með blönduðum sveitum og einnig verður hugsanlega sprettganga. Að því loknu verða grillaðar pylsur með öllu tilheyrandi í boði Ulls.
Sjáumst á sunnudaginn.
Þóroddur F.

Myndir úr Fossavatnsgöngunni komnar á myndavefinn

Myndir úr Fossavatnsgöngunni 2012 eru nú komnar á myndavefinn en hann finnst eins og kunnugt er með því að smella á myndina sem merkt er „Myndavefur“ í dálkinum hér til hægri. Myndirnar eru teknar við startið uppi á heiði og við markið. Engar meyndir eru frá verðlaunaafhendingunni og ef einhverjir eiga slíkar myndir væri ákaflega vel þegið að fá að birta þær. Þá eru góðar myndir úr göngunni að sjálfsögðu vel þegnar. Þeir, sem vilja koma myndum á framfæri, ættu að senda vefstjóra tölvupóst (krækja neðst í dálkinum hér til hægri).
Reynt var að setja einhvern texta við allar myndirnar. Látið endilega vita ef þið rekist á einhverjar villur þar og eins ef ykkur finnst eitthvað vanta. Og munið að það má skrifa athugasemdir við myndirnar, slíkt gerir myndasafnið enn skemmtilegra!