Enn einn dýrðardagur í Bláfjöllum!

Það er ekki síðra að ganga á skíðum á sumrin en á veturna, a.m.k. þegar veðrið og færið er eins og var í Bláfjöllum í dag. Næstum logn, sólskin og líklega um þriggja stiga hiti. Brautin var góð þó að sporið væri á stöku stað dálítið grunnt, hringurinn lá upp að Heiðartoppi og inn í Kerlingardal og mældist 12,8 km. Það komu nokkuð margir við í skálanum en brautin hefði alveg borið fleiri! Nú er um að gera að nýta sér þetta góða vorveður og færi hvort heldur er til að fara í skemmtilegar göngur um Bláfjallasvæðið eða til að fínpússa formið og tæknina fyrir hina miklu uppskeruhátíð skíðagöngumanna, Fossvatnsgönguna á Ísafirði sem fer fram um næstu helgi og Reykjavíkurmeistaramót sem líklega verður haldið á Bláfjöllum 1. maí.
Smellið á myndirnar til að sjá þær stærri!

Lokadagur Andrésarleikanna

Andrésarleikunum er lokið með boðgöngu og áttu Ullungar eina sveit í hvorum flokki.
9-11 ára, Birgitta. B, Arna E. og Hlín E lentu í 5 sæti af 11.
12-14 ára, Harpa Ó, Málfríðu E. og Gústaf D lentu í 6 sæti af 6.

Glæsileg frammistaða hjá öllum þátttakendum í Andrésarleikunum og ljóst að þátttakendur, bæði keppendur og fylgdarlið lærðu margt sem við tökum með okkur í veganesti og nýtum okkur í æfingum næsta árið.

Það var sérstaklega gaman að fylgjast með unga fólkinu sem allt lagði sig fram og gerði sitt besta, þau eru frábær fyrirmynd og verða án efa hvatning fyrir unga og aldna að stunda skíðagöngu af enn meiri krafti næsta vetur.

Líklegt er að síðasta göngumót á vegum Ullunga verði í Bláfjöllum þann 1. maí, nánar um það síðar.
Þóroddur F.