Ullungar eignast Íslandsmeistara

Í dag var keppt í göngu með hefðbundinni aðferð á Skíðamóti Íslands á Akureyri og voru tveir Ullungar meðal þátttakenda. Í flokki pilta 17-19 ára sigraði Gunnar Birgisson, Ulli, með nokkrum yfirburðum. Í göngu kvenna sigraði Elena Dís Víðisdóttir frá Ísafirði og í karlaflokki varð Brynjar Leó Kristinsson frá Akureyri hlutskarpastur en þar var Gunnlaugur Jónasson, Ulli, meðal keppenda. Íslandsmeisturum, og reyndar öllum kepppendum, er hér með óskað til hamingju en heildarúrslit má sjá hér.

Orkugangan/Buchgangan 14. apríl 2012

Vefnum barst eftirfarandi fyrir nokkru frá galvöskum Þingeyingum:
Orkugangan 2012 veður haldin þann 14. apríl. Búið er að stofna heimasíðu um gönguna og eru helstu upplýsingar komnar þar inn fyrir væntanlega keppendur/gangendur, slóðin er orkugangan.is. Áfram verður unnið að síðunni og munu ítarlegri upplýsingar koma þar inn smátt og smátt.
Það stendur til að stækka þennan viðburð jafnt og þétt á komandi árum og mun verða vart breytinga í þá áttina nú 14. apríl. Samhliða þessari 60 km göngu eru styttri vegalengdir gengnar og er göngufólk hvatt til að sækja Þingeyjarsýslur heim þessa helgi og taka þátt í þessari stórskemmtilegu göngu enda geta allir fundið leið og vegalengd við sitt hæfi. En frekari upplýsingar eru á áðurnefndri heimasíðu. Þess má svo geta að búið er að byggja upp og laga veginn frá Húsavík að skíðasvæðinu, og alveg upp að Þeistareykjum.

Bláfjallagangan, 9. apríl 2012 (annan í páskum)

Forskráningu í Bláfjallagönguna lokið

Nú hefur verið lokað fyrir forskráningu í Bláfjallagönguna. Þeir, sem enn hafa ekki komið því í verk að skrá sig, geta þó enn verið með því hægt verður að skrá sig í skála Ullar í Bláfjöllum frá kl. 10:30 í fyrramálið. Þeir, sem hefja gönguna kl. 12:30 (2 km og þeir sem telja sig þurfa meira en 2 klst. fyrir 20 km göngu) þurfa að ljúka skráningu fyrir kl. 12:00 en aðrir fyrir kl. 12:30.

Áburðarráð fyrir Bláfjallagönguna

Ýmsir hafa velt því fyrir sér hvað best sé að bera undir skíðin í Bláfjallagöngunni á morgun. Að bestu manna yfirsýn verður dæmigert klísturfæri, þótt lítið eitt hafi snjóað í morgun er ekki líklegt að sá snjór skipti neinu máli á morgun þegar búið er að vinna brautina. Það er því ráðlegt að hreinsa skíðin vel í kvöld og bera þunnt lag af ísklístri á festusvæðið og láta það kólna vel. Ofan á það kemur svo klístur morgundagsins sem gæti heitið „Universal“ eða „Multigrade“ eftir því hver framleiðandinn er.

Fréttir úr Bláfjöllum á páskadag:

Þóroddur formaður hringdi úr Bláfjöllum um kl. 11 og hafði þær fréttir að færa að þar væri vissulega nokkur strekkingur en þó langt frá því að vera nokkurt aftakaveður og skv. veðurspám á heldur að lægja síðar í dag. Þarna er nýlögð 5 km göngubraut og ágætt færi. Hiti er undir frostmarki og aðeins hefur snjóað, þó ekki svo mikið að það skafi neitt að ráði. Uppi á heiði hefur hins vegar snjóað meira og þar er dálítill skafrenningur. En það er tilvalið að bregða sér á skíði og taka síðustu æfingu fyrir Bláfjallagönguna á morgun!

Smellið á myndina til að sjá hana stærri!

Skíðatímabilið er ekki búið. Þrátt fyrir hlýindi er enn nógur snjór í Bláfjöllum og Bláfjallagangan, sem við þurftum því miður að fresta í byrjun mars, fer fram við skála Ullar annan í páskum. Meiri upplýsingar fást með því að smella á myndina hér til hliðar. Það er eindregið óskað eftir að væntanlegir keppendur auðveldi okkur undirbúninginn með því að skrá sig hér á vefnum. Það má gera með því að smella á myndina efst í dálkinum hér til hægri og þar er einnig krækja í síðu með enn meiri upplýsingum.

Bláfjallagangan er almenningsganga sem þýðir einfaldlega að það eru allir velkomnir og keppnina sem slíka þarf ekki að taka alvarlegar en hverjum hentar. Fjölmennum í Bláfjöll og njótum skemmtilegrar skíðagöngu, vonandi í frábæru páskaveðri!

Allir geta unnið!   Eftir gönguna verður kaffihlaðborð og verðlaunaafhending í skála Breiðabliks. Allir þátttakendur fá lukkunúmer og úr þeim verður dregið um ýmsa ágæta vinninga, m.a. frá útivistarverslununum CraftSport á Ísafirði og Everest. Þá munu páskaegg frá Góu o.fl. fljóta með!

Ullungar í Strandagöngu

Strandagangan fór fram laugardaginn 17. mars eins og áætlað hafði verið. Á myndum frá Munda Páls og Jóni Halldórssyni má sjá að þetta var hið glæsilegasta mót eins við mátti búast þegar Strandamenn eiga í hlut. Á klæðnaði göngumanna má sjá að kuldaboli hefur verið nokkuð nærgöngull en þrátt fyrir það luku 79 keppni. Ullungar áttu þarna nokkra fulltrúa. Í 10 km göngu kepptu Björk Sigurðardóttir, Sigurbjörg Gísladóttir og Hreinn Hjartarson en í 20 km göngu þau Gerður Steinþórsdóttir, Málfríður Guðmundsdóttir og Snorri Ingvarsson. Heildarúrslit má sjá hér.

Íslendingar í „Birken“

Meðan við bíðum í ofvæni eftir úrslitum úr Strandagöngunni má nefna að í dag var einnig keppt í einni af frægustu, eftirsóttustu og erfiðustu skíðagöngum í heimi, Birkibeinagöngunni í Noregi. 16.500 voru skráðir í gönguna og komust færri að en vildu því fullbókað var í gönguna 97 sekúndum eftir að opnað var fyrir skráningu! En fimm keppendur voru skráðir frá Íslandi og komust allir í mark. Sævar Birgisson var fljótastur þeirra, gekk á 2:55:43 sem er gríðargóður tími ef miðað er við að sigurvegarinn Anders Aukland gekk á 2:21:34 sem er nýtt brautarmet. Ullungurinn Birgir Gunnarsson gekk á 3:47:12, Þorsteinn Hymer á 4:06:15, Kjell Hymer á 5:31:18 og Pétur Jónsson á 6:09:46. Þeim er hér með óskað tilhamingju með afrekið en eins og sjá má hér er brautin ekki árennileg.

Strandagangan 2012

Strandagangan 2012Strandagangan 2012 fer fram laugardaginn 17. mars í Selárdal við Steingrímsfjörð. Stysta brautin, 1 km, er eingöngu ætluð 12 ára og yngri og verður ræst í þá göngu kl. 12:20. Í aðrar göngur verður ræst kl. 13:00 en þær eru 5 og 10 km ganga í opnum flokki karla og kvenna og 20 km ganga í þremur aldursflokkum karla og kvenna en 20 km gangan gefur stig í Íslandsgöngunni. Sveitakeppni verður í öllum vegalengdum. Vegleg verðlaun eru í boði og allir þátttakendur fá viðurkenningarpening.
Nánari upplýsingar, svo sem um skráningu, fást á myndinni hér til hliðar en hana má gera læsilegri með því að smella á hana. Þótt hægt sé að skrá sig á staðnum er eindregið mælt með því að væntanlegir þátttakendur auðveldi Skíðafélagi Strandamanna vinnu við undirbúning með því að skrá sig fyrir fram.
Að göngu lokinni verður verðlaunaafhending og veglegt kaffihlaðborð, hin víðfræga Strandakaka í félagsheimilinu á Hólmavík. Fyrir þá sem ekki þekkja til er hér greinargóð lýsing á Strandakökunni 2009.

Mánudagur 12. mars – æfingar – falla niður

Sé að það eru komnir 11 m/s núna kl 15 og búið að loka lyftum þar sem það á að hvessa enn frekar sídegis og því fellur æfing niður í dag.
ÞFÞ

Æfing í Bláfjöllum kl. 18:00 í dag undir stjórn Haraldar Hilmarssonar og væntalega Óskars Jakobs líka. Allir aldurshópar og getuhópar, að mæta og búa sig undir Strandagönguna sem verður á laugardaginn.

Allt á kafi í snjó og spor 5 km.
Þóroddur F.